Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 82. fundur,  20. mars 2023.

fjármögnun heilsugæslu.

[16:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hér inn á jákvæða þætti þegar kemur að mönnuninni. Við höfum verið að vinna í því á undanförnum misserum að efla verulega sérnám og það hafa aldrei fleiri heimilislæknar verið hér í námi. Þeir eru 95 talsins. Það útskrifast því fleiri á næstu misserum, sem mun hjálpa til. Það er búið að fjölga námsplássum hjúkrunarfræðinga, sem hefja nám á hverju ári, í 215. Þessir 2 milljarðar koma inn í fjármögnunarlíkön sem munu koma öllum heilsugæslustöðvunum 19, auk þeirra fjögurra sem eru einkareknar og svo bætist ein einkarekin við á Suðurnesjum sem búið er að semja við — þessi fjármögnunarlíkön eru í stöðugri þróun og það eiga allir sæti við það borð. Þetta eru jákvæðir hlutir sem við erum að vinna í; að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað.

Af því að hv. þingmaður kom inn á nágrannaþjóðir þá eru til að mynda Danir með nýjan aðgerðapakka (Forseti hringir.) í fimm liðum. Það eru nákvæmlega sömu hlutir sem verið er að gera þar og ég er að fara hér yfir. Það er verið að setja (Forseti hringir.) aukinn þunga á aðgerðir, í einkareksturinn í valkvæðum aðgerðum, það er verið að efla heilsugæsluna, (Forseti hringir.) það er verið að fjölga heilbrigðisstarfsfólki. Þannig að það eru nákvæmlega sömu hlutir og sömu aðstæður sem verið er að kljást við.