Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 84. fundur,  21. mars 2023.

utanríkis- og alþjóðamál 2022.

852. mál
[15:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður vísar í utanríkisráðherra Finna þá hef ég líka átt samtöl við þingmenn og ráðherra í finnsku ríkisstjórninni. Þau hafa sagt, alveg eins og hæstv. utanríkisráðherra, að þessar tvær samkomur hafi mjög ólíkt hlutverk og önnur nægi ekki heldur verði þær báðar að koma til svo dugi. En ég ber virðingu fyrir því að hv. þingmaður tók dæmi af akkúrat þessari hefðbundnu ógn, sem er auðvitað allt öðruvísi en líklegt er að við munum mögulega þurfa að glíma við, enda hafa Evrópusambandið og NATO líka gert með sér tvíhliða samkomulag um varnar- og öryggismál. Það liggur því í hlutarins eðli að þessar tvær stoðir ætla sér að vinna nánar saman og önnur telur sig ekki geta gert það eingöngu upp á eigin spýtur.