Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

staða heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum.

[15:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðbrandi Einarssyni fyrir að taka upp þetta málefni. Það má kannski taka þetta út frá tvenns konar sjónarhorni. Það er annars vegar þetta heilbrigðisumdæmi og verkefni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og svo Vestmannaeyjar sérstaklega sem eru, eins og hv. þingmaður fór yfir hér, kannski ekkert sérstaklega vel í sveit settar vegna legu og samgangna. Ég hef nýlega tekið samtal við forstöðumann heilbrigðisstofnunarinnar varðandi Vestmannaeyjar og ég held að þessi staða sem hv. þingmaður fór ágætlega yfir, um álag, og tekur djúpt í árinni vissulega um að fólk sé komið í þrot — ég upplifi það ekki þannig. Heilbrigðiskerfið okkar er mjög þrautseigt og þá fyrst og fremst vegna starfsfólks okkar og það er viðurkennt að það er búið að vera undir viðvarandi álagi og kannski þyngsti tíminn núna síðastliðna mánuði, ekki endilega í gegnum Covid. Það var erfitt. Það var þungt, það var erfitt fyrir alla. En ég held að það sé mikilvægt þegar við ræðum þessi mál að draga það fram hversu þungur tími það hefur verið núna síðustu mánuði í gegnum þessa holskeflu veirusýkinga, án þess að geta alltaf sagt: Ja, það er Covid. En þá hliðsettum við mjög margt annað samhliða því að halda uppi allri þjónustu. Læknamönnunin miðað við heildarumfangið og það sem við erum að kljást við alls staðar á landsbyggðinni er tiltölulega góð í Vestmannaeyjum. Það er hins vegar raunveruleiki þeirra sem eru að starfa á landsbyggðinni að vera einhvern veginn alltaf á vaktinni, það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir. Ég mun klárlega taka þessa fyrirspurn áfram og sérstaklega upp við forstöðumann stofnunarinnar sem er auðvitað dag frá degi miklu betur inni í þessu en akkúrat ég hér og nú. Ég þakka fyrirspurnina og skal síðan koma að sjúkraflutningunum í seinna andsvari.