Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 87. fundur,  27. mars 2023.

efling löggæslu á Vestfjörðum.

[15:48]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og það er akkúrat það sem ég hef áhyggjur af. Áhyggjur mínar snúast nákvæmlega um það, eins og ég var að reyna að telja upp, að í reglugerðinni með frumvarpinu sem var samþykkt 2015 var tiltekið að aðalstöð sýslumannsins á Vestfjörðum ætti að vera á Patreksfirði. Það er ekki raunin, hún er á Ísafirði. Sýslumaðurinn er staðsettur á Ísafirði og meginþorri allrar starfseminnar. Áhyggjur mínar snúa að því við sem hér erum inni, hvort sem það eru þingmenn eða ráðherrar, setjum reglugerðir sem eiga að fastsetja störf úti á landi eins og var gert árið 2015 en svo sjáum við það hér með mjög glöggu dæmi að það er ekki að virka sem slíkt. Ég spyr: Hefur ráðherrann engar áhyggjur af því að við séum að setja þessar reglur og segja: Störfin eiga að vera þarna, aðalstöðvarnar eiga að vera hér og útstöðvarnar hér, en svo er það bara í raun og veru sá sem ræður sem ákveður hvernig þetta er?