Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[17:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að fram sé komin ný tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum. Það er mér mikið hjartans mál að við höfum áætlun og að við höfum stefnu. Alþingi samþykkti stefnu í geðheilbrigðismálum vorið 2022 sem ég vakti athygli á þá að skorti framtíðarsýn er varðar fjármögnun. Við erum mjög dugleg við að móta okkur ákveðna stefnu og aðgerðaáætlanir en okkur gengur verr að framkvæma það sem við segjumst ætla að gera og segjumst stefna að, því miður. En auðvitað fagnar maður því að ráðherra komi fram með þessa áætlun af því að hún inniheldur margt mjög gott, margar góðar hugmyndir, og samráðið sýnist mér hafa verið býsna gott við vinnuna og því ber að fagna.

Geðheilbrigðismálin eru algert olnbogabarn í afskaplega veikri fjölskyldu heilbrigðismála á Íslandi, svo að maður taki upp myndlíkinguna. Heilbrigðiskerfið er vanfjármagnað, það hefur verið vanfjármagnað um árabil og áratugaskeið, leyfi ég mér að segja, og það sér ekkert fyrir endann á því. Þegar olnbogabarnið geðheilbrigðismál, sem ætti í rauninni að vera aðalmálið hjá okkur, er eins verulega vanfjármagnað og raun ber vitni þá spyr maður sig hvort ekki þurfi að kalla á einhvers konar neyðaraðgerðir. Þegar lesnar eru umsagnir við þetta úr samráðsgátt, Landssamtökin Geðhjálp hafa t.d. bent á þetta, þá hefur komið í ljós, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðiskerfið, að fjárframlög til málaflokksins geðheilbrigðismál eru tæplega 5% af heildarfjárframlögum til heilbrigðismála. Þess vegna brá mér nokkuð að heyra hæstv. ráðherra tala um það hér í dag, en ég sé það líka í tillögunni til þingsályktunar, að það sé ekki búið að reikna út hvað þetta muni kosta. Hæstv. ráðherra tilkynnti hér við upphaf umræðu að hann ætlaði að kynna fjármögnunina fyrir nefndinni þegar hann kæmi fyrir nefndina til að kynna þetta mál betur. Í því efnahagsástandi sem við erum núna, þar sem liggur fyrir að það þarf að skera niður víða, sleppa því að fara af stað í einhverjar framkvæmdir og aðgerðir, þá óttast ég mjög um þetta olnbogabarn okkar, af því að ef við ætlum að halda áfram að vanrækja þennan málaflokk, geðheilbrigðismálin, þá munum við sjá vandann aukast. Við þurfum að senda skýrt ákall til hæstv. heilbrigðisráðherra um að tryggja að í fjármálaáætlun verði ekki skorið niður til geðheilbrigðismála.

Sjálfsvígum hefur fjölgað umtalsvert. Ef við horfum til barna þá hefur andlegri líðan og heilsu þeirra hrakað verulega á síðasta áratug. Fleiri og fleiri börn greinast með einhvers konar frávik, geðlyfjanotkun barna hefur tvöfaldast á tíu árum, öryrkjum sem eiga við geðrænar áskoranir að stríða hefur fjölgað um 250% á 30 árum og börnum sem meta andlega heilsu sína góða eða mjög góða hefur fækkað umtalsvert á síðustu tíu árum. Það getur ekki talist ásættanlegt að 54% drengja í 8.–10. bekk og 33% stúlkna meti að þau séu ánægð í okkar annars góða landi. Þetta eru opinberar rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar í áratugi. Þegar við svo sjáum að sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungs fólks á Íslandi þá spyr maður: Hvar er þríeykið? Af hverju erum við ekki að gera allt vitlaust út af þessu? Það er svo ótrúlegt að við sjáum sjálfsvígstölur hækka umtalsvert og svo er það reyndar alveg umhugsunarefni og má spyrja sig hvers vegna ekki er hægt að birta sjálfsvígstölur með skilvirkari hætti en raun ber vitni, af því að oftar en ekki liggur það fyrir hvernig einstaklingur kaus að enda líf sitt. En tölurnar fyrir síðasta ár eru yfirleitt ekki birtar fyrr en um mitt næsta ár. Það er svolítið skrýtið. Þá hef ég áhyggjur af því að stjórnvöld taki ástandið ekki jafn alvarlega því að þau líti svo á að þetta hafi nú bara gerst einhvern tímann fyrir einhverju síðan. Það verður að bregðast við þessu ástandi.

Það eru fjöldamargar aðgerðir hérna og það verður gott að fylgjast með hvernig hv. velferðarnefnd mun fara í þetta en ég hef áhyggjur af orðum í greinargerð með þingsályktunartillögunni, eins og varðandi stöðumatið, að miklar framfarir hafi átt sér stað í geðheilbrigðismálum undanfarin ár. Vissulega er sagt að enn sé langt í land til að staðan sé ásættanleg, af því að hún er alls ekki ásættanleg. Það kom skýrt fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að framkvæmdin hefur ekki skilað sér. Þó að áætlanirnar hafi verið ákjósanlegar og lofað góðu þá hefur okkur ekki tekist að framkvæma það sem hefur verið talað um að gera. Það auðvitað kann að koma til af því að þetta er vanfjármagnað. Stefnan sem við samþykktum hérna 2022 var verulega vanfjármögnuð og þessi er ekki með neinu kostnaðarmati. Það kom fram í orðum hæstv. ráðherra að það væri nú oft svo með þingsályktunartillögur að þær væru ekki kostnaðarmetnar en það er líka oft svo að þær eru kostnaðarmetnar. (WÞÞ: Alla jafna ekki.) Já, við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd vorum að vinna með þingsályktunartillögu í morgun bara og þar var skýrt gerð grein fyrir því hvað hlutirnir kostuðu og hvernig það væri. Þannig að það er allur gangur á því. En þegar maður hefur miklar áhyggjur af því að fjármagn fylgi ekki loforðum þá auðvitað kvikna viðvörunarljós.

Það er einn hópur sem mig langar að ræða hérna líka og það er eldra fólk með fjölþættan vanda, þ.e. eldra fólk sem er að glíma við geðrænar áskoranir samhliða fíkn. Það er mjög erfiður hópur og verður ekki auðveldari eftir því sem þau verða eldri af því að þá fara þau oftar að þurfa á meiri heilbrigðisþjónustu að halda. Ég held að fyrir utan börnin okkar, sem við verðum að fara að vakta betur og huga betur að líðan þeirra, þá sé þetta hópur sem ég myndi gjarnan vilja sjá hæstv. heilbrigðisráðherra veita athygli sem skyldi, eldra fólk með fjölþættan vanda, hvort tveggja geðrænan og fíknivanda.