Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 89. fundur,  28. mars 2023.

aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum fyrir árin 2023-2027.

857. mál
[18:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Kannski snerist þetta auðveldlega við þar sem ég er ekki að gera sérstaka athugasemd við prýðisræðu heldur er svona að mæta þeim athugasemdum sem hv. þingmaður fór með í sinni ræðu við það að kostnaðarmat fylgdi ekki áætluninni. Ég deili þeirri skoðun, ég vil að við sjáum til framtíðar að öll mál af þessu tagi séu kostnaðarmetin, ábatagreind og fari inn í þessa stefnumótandi hringrás sem lög um opinber fjármál í raun og veru eru að reyna að pakka okkur inn í. Bæði fékk ég þennan breiða starfshóp, sem vann þessa áætlun, og ráðuneytið til að leggja mat á liðina, hverja og eina aðgerð. Þegar ráðuneytið mætir fyrir velferðarnefnd og kynnir málið betur að lokinni þessari umræðu þá verður farið yfir það kostnaðarmat.

Ég ætla síðan að segja að fyrir utan undirbúningsvinnuna og þetta breiða samráð, notendamiðaða samráð — það var alveg ótrúlega flottur hópur sem var að vinna verkefnið og vann vel og hratt —þá gerði þessi fyrsti liður í meginmarkmiðunum, út frá sýninni að geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga, mig eilítið bjartsýnan á að við náum betri árangri í þessu. Þannig að ég deili algjörlega þeirri skoðun að vera með forvarnamiðaðri áherslur og geðræktaráherslur og reyna að efla allt samfélagið í þessu, skólasamfélagið, nærsamfélagið allt, í þessari vegferð okkar.