Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 104. fundur,  9. maí 2023.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Gleðilegan Evrópudag. Á þessum hátíðardegi er tilvalið að árétta kröfu um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið en rétt í þessu birtist ný könnun þar sem fram kemur að ríkur meiri hluti landsmanna vill einmitt fá slíka þjóðaratkvæðagreiðslu, tveir þriðju hluti sem spurður var, og er þetta stórstökk. Almenningur finnur kröftuglega fyrir áhrifum þess að vera hér með sjálfstæða peningastefnu og örgjaldmiðil sem veldur óðaverðbólgu og stýrivöxtum sem þekkjast hvergi í nágrannalöndum. Vegna EES-samstarfsins sem við tökum þátt í sem fullvalda ríki erum við hér á Alþingi að samþykkja ýmiss konar regluverk sem samþykkt hefur verið í sameiginlegu EES-nefndinni, regluverk sem hefur fengið ítarlega vinnu í Evrópusambandinu sjálfu þar sem löndin koma með sínar ábendingar vegna sérstakra aðstæðna sinna og annarra álitaefna. Þar erum við Íslendingar hins vegar ekki við borðið. Við erum nefnilega aukaaðilar. Þar skiptir máli að við tökum fullan þátt með hagsmuni okkar að leiðarljósi. Þar hefur verið bætt í á undanförnum árum en að mínu áliti færi betur á því að við fengjum fulla aðild til hagsbóta fyrir almenning á Íslandi. En fyrst og fremst eigum við auðvitað að bera virðingu fyrir þjóðarviljanum og spyrja eftirfarandi spurningar: Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með því markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?

Herra forseti. Það er virkilega ánægjulegt að finna síaukinn stuðning almennings við áframhaldandi aðildarviðræður. Stuðningur við aðild Íslands að Evrópusambandinu hefur sömuleiðis aldrei mælst meiri. Þá þróun er einnig að finna í öðrum EES-ríkjum og ég gleðst yfir því. Tökum skrefið, spyrjum þjóðina. Til hamingju með Evrópudaginn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)