Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 108. fundur,  15. maí 2023.

safnalög o.fl.

741. mál
[16:23]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta fannst mér alls ekki skýrt. Má skilja sem svo að þetta muni ekki gilda um þá sem eru nú þegar í þessum stöðum? Að ef einhver hefur setið í sínum stól í tíu ár og er skipaður á ný ef staða hans hefur verið auglýst, sem er allur gangur á, þá geti verið að eftir fimm ár fái hann fimm ár í viðbót? Að við sætum uppi með sama forstöðumann menningarstofnunar í tíu ár í viðbót þannig að sami einstaklingur væri þar mögulega í 20 ár?

Af hverju er ég að biðja hv. þingmann um að vera skýran með þetta? Vegna þess að nefndarálitið er mjög óskýrt. Það tekur ekki á þessu. Þetta getur skipt mjög miklu máli af því að þetta eru réttindi fólks. Við þurfum að vita það nákvæmlega. Ég spyr að auki: Hvers vegna fer meiri hlutinn þá leið að gera þetta svona þegar við höfum verið að þróa samfélagið í hina áttina í hinum ýmsu lagabálkum, þar sem hefur verið sett inn skýr tveggja tímabila regla — tvisvar sinnum fimm ár — til að tryggja að það sé endurnýjun í viðkvæmum stöðum sem kalla á að þar sé endurnýjun, bæði í viðkvæmum stöðum sem varða einstaklingsrétt en líka við menningarstofnanir? Við erum með svona í fjölmörgum menningarstofnunum. Þar hefur ekki verið farin sú leið að undanskilja einhverja heldur hefur verið tekin ákvörðun um þetta. Hvers vegna tekur meiri hlutinn allt í einu ákvörðun um að fara aðra leið með þá sem sitja nú þegar í embættum? (Forseti hringir.)