Staðan í efnahagsmálum, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umr.
Virðulegur forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra leiðist að tala um eigin kjör, hann hefur sagt það áður. En við erum hér að tala um það hvers konar skilaboð við viljum senda á tímum mikilla vaxtahækkana og mikillar verðbólgu.
En að öðru. Nú er stutt eftir af þessu þingi. Það er húsnæðisekla og ófremdarástand á leigumarkaði, vextir og verðbólga í hæstu hæðum. Mun hæstv. fjármálaráðherra beita sér fyrir eða styðja tillögur um það hér í þingsal að lögfest verði tímabundin leigubremsa eins og var gert í Danmörku í fyrra til að koma böndum á leiguverðshækkanir? Hæstv. forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna hefur sagt að slíkt komi til greina. Það hefur hæstv. innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins líka gert. En hvað segir hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins? Styður hann slíka verðstýringu á leigumarkaði til að tryggja m.a. að húsnæðisbætur renni ekki bara beint út í leiguverð? Styður hæstv. ráðherra að sett verði takmörkun á hækkun leigufjárhæðar með lögum til að verja þennan hóp á leigumarkaðnum?