153. löggjafarþing — 115. fundur,  1. júní 2023.

Skaðaminnkun.

[15:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir fyrir þessa umræðu. Hún er mjög gagnleg, bæði til að efla okkur í þessum vanda sem við blasir og halda áfram þeirri vinnu sem við erum með um þau úrræði sem við þurfum að fara í. Ég vil ítreka það, af því að ég dvaldi í fyrra svari við spurningu þrjú um markmið skaðaminnkunar og þá út frá refsingum fyrir neysluskammta, ég reyndi að fanga það hér í svari um skilgreiningu á skaðaminnkun, að við þurfum auðvitað að horfa til fjölbreyttra meðferðarúrræða á grundvelli skaðaminnkunar. Það verður að hafa það í huga. Ég held að við þurfum hins vegar að virða þann þátt sem snýr að refsingu fyrir glæp — og maður horfir á skaðaminnkunarhugtakið — þá getur það valdið tjóni í sjálfu sér. Þannig verðum við að horfa á þetta en ekki missa sjónar á því að við þurfum að fara í mjög fjölbreytt úrræði. Það hefur náðst árangur út frá þessu sem við köllum afglæpavæðingu. Það var til að mynda stigið stórt skref í átt að skaðaminnkun í íslenskri löggjöf hér á 150. löggjafarþingi þegar við samþykktum breytingar varðandi neyslurými. Mjög mikilvægur áfangi. Í maí 2021 var samið um skaðaminnkandi þjónustu á vettvangi fyrir einstaklinga með vímuefnavanda, það var jafnframt mikilvægur áfangi. Í byrjun árs ráðstöfuðum við 30 milljónum til að tryggja fólki, sem er heimilislaust með flóknar þjónustuþarfir, betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og heimaþjónusta Reykjavíkur annast þá þjónustu. Ég gæti talið fleiri atriði, hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Starfshópurinn um skaðaminnkun, sem er að fara í gang, er til að ná utan um öll þessi fjölbreyttu úrræði með okkur og það verður kjarnahópur með öllum aðilum og svo rýnihópur þar sem lögð er áhersla á aðkomu fulltrúa þjónustuaðila, notenda og stjórnvalda. (Forseti hringir.) Ég ítreka þakkir fyrir þessa umræðu, hún er mjög mikilvæg.