153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:49]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Góðir landsmenn.

Á hægri fæti innskeifur

en útskeifur á vinstri

eftir þekktu mynstri.

Hlaut að ganga í hringi,

hafnaði á þingi.

Svona yrkir Þórarinn Eldjárn og gerir létt grín að meintum hringlandahætti þingmanna þar sem efndir fylgja ekki alltaf orðum. Mér finnst vísan að minnsta kosti eiga vel við ríkisstjórnina sem kemst hvorki áfram né afturábak. Og það er kannski skiljanlegt. Þegar búið er að taka ágreiningsmál á milli stjórnarflokkanna út af borðinu er fátt eftir nema vellíðan sem valdastólar gefa. Þá fer pólitíkina að vanta í pólitíkina.

Sannleikurinn er sá, kæru landsmenn, að það ríkir megn óánægja með sitjandi ríkisstjórn: Heilbrigðisþjónustan líður fyrir úrræðaleysi stjórnvalda og mönnunarvandinn þar er óleystur. Samningar við sérgreinalækna hafa verið lausir í fjögur og hálft ár og fólkið sem þarf á þjónustu þeirra að halda greiðir háar upphæðir úr eigin vasa og þau efnaminni fresta því að fara til læknis. Almannatryggingar eldra fólks og öryrkja hafa dregist enn frekar aftur úr lágmarkslaunum og lífeyrisréttindi rýrna. Ríkisstjórnin dregur lappirnar við uppbyggingu félagslegra íbúða og lætur eins og vöxtur ferðaþjónustunnar valdi ekki álagi á innviði og húsnæðismarkað. Það er aðkallandi að bæta kjör og styrkja stöðu barnafólks og ungs fólks yfir höfuð. Ójöfnuð, sem birtist í óréttlátri skattastefnu og aukinni gjaldtöku í heilbrigðiskerfinu, þarf að stöðva strax. Það verður að jafna leikinn. En ríkisstjórnin færir eignir og auðlindir þjóðarinnar á silfurfati á afslætti til fámenns hóps auðmanna.

Sjálfvirknivæðing færist stöðugt í aukana og mun leiða til mikilla breytinga á vinnumarkaði en ríkisstjórnin grípur ekki til aðgerða til að undirbyggja þær stórfelldu þjóðfélagsbreytingar. Ógnin sem stafar að loftslagsbreytingum af mannavöldum er raunveruleg og nánast áþreifanleg en ríkisstjórnin grípur ekki til aðgerða þar sem skipta máli. Í þessum brýnu úrlausnarmálum er ríkisstjórnin aðgerðalaus.

Ég kalla eftir stefnu í þessum efnum og aðgerðaáætlunum þar sem velferð almennings er höfð að leiðarljósi og tryggt að kostnaður falli ekki á herðar tekjulægri hópa eða íbúa í dreifðum byggðum umfram aðra. Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða og laganna um eftirlit og heimildir Fiskistofu stendur yfir. Betri lög verða að vinna gegn samþjöppun í sjávarútvegi, gera nýliðun í greininni mögulega og hámarka arð þjóðarinnar af auðlindinni. Samfylkingin vill réttlátari skiptingu arðsins sem auðlindir okkar gefa.

Við viljum líka að þjóðin fái að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið og, ef jákvæð niðurstaða fæst, taka upp stöðugri og ódýrari gjaldmiðil en íslensku krónuna. Það er stundum sagt að það að breyta kerfum sé eins og að flytja kirkjugarð; að ekki megi búast við hjálp frá þeim sem þar eru fyrir. En við þurfum ekki og eigum ekki að gera allt á forsendum þeirra fáu sem hagnast á að viðhalda óbreyttum kerfum.

Ágætu landsmenn. Víða í Evrópu líkt og hér heima er kynt undir tortryggni í garð innflytjenda og flóttamanna og búinn til andstæðingur úr öllum þeim sem þykja skera sig úr, hvort sem er á grundvelli trúarbragða, uppruna eða litarháttar. Andrúmsloftið er að þessu leyti farið að minna á öfga fasismans sem kynti ófriðarbálið á fjórða áratug 20. aldar. Friðelskandi þjóð á alltaf að beita sér gegn slíkri þróun. Umburðarlyndi, samkennd og jöfnuður er afl friðar. Ef við sem erum á þingi göngum bara í hringi breytist ekkert. Baráttan fyrir mannréttindum og gegn misskiptingu auðs og misbeitingu valds, baráttan fyrir bættum kjörum lágtekjufólks ásamt menntun og velferð fyrir alla íbúa þessa lands, er í mínum huga ein og sama baráttan. Barátta jafnaðarmanna fyrir betra samfélagi. — Góðar stundir