Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 122. fundur,  9. júní 2023.

breyting á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

1156. mál
[18:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál snýst um það að æðstu embættismenn ríkisins gangi á undan með góðu fordæmi og axli ábyrgð á því að senda skýr skilaboð inn í samfélagið með því að taka á sig hóflega skerðingu launa í stað þess að þiggja alla þá launahækkun sem núverandi lagarammi gerir ráð fyrir. Hér hefur því verið haldið fram að þetta eigi eingöngu að eiga við um þjóðkjörna fulltrúa. Ég vil segja um það að mér finnst þessi ábyrgð ekki bara hvíla á þjóðkjörnum fulltrúum heldur öllu efsta laginu hjá embættismönnum ríkisins. Það er með engum hætti hægt að halda því fram að þetta frumvarp rýri virðingu þeirra embætta sem undir það heyra eða vegi að sjálfstæði þeirra, hvort sem um er að ræða dómara eða saksóknara. Þess vegna vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki hlynnt þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir og legg til að þetta frumvarp verði samþykkt óbreytt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)