154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[13:20]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Stöðugleikinn tekur mið af þjónustunni sem fólk þarf að fá, heilbrigðisþjónustunni, skólaþjónustunni, þjónustu við fatlað fólk, við innflytjendur og flóttafólk. Það er ákveðin þjónusta, skylda til þjónustu og réttindi sem við setjum í lög og óháð efnahagssveiflu eiga þessi réttindi að viðhaldast. Það er áskorun stjórnvalda að tryggja að réttindin haldi sér ellegar að segja það upphátt að við höfum ekki efni á þessum réttindum og taka þá pólitíska afstöðu um að afnema þau eða minnka þau eða gera hlutina einhvern veginn öðruvísi. En það er það sem vantar. Þar erum við ekki með stöðugleika. Við erum ekki með stöðugleika í því, þá vissu að við getum haft öruggt húsaskjól á næsta ári, að heilbrigðiskerfið nái að sinna þjónustu og vinna upp biðlistana. (Forseti hringir.) Þar vantar stöðugleikann af því að það er bara verið að horfa á stöðugleika þessarar risastóru efnahagsköku og þessarar einu tölu sem er einhvern veginn heilög í höfði Sjálfstæðismanna. (Forseti hringir.) Þeir gleyma alltaf að horfa á áhrifin sem eru á gólfinu, biðlistana og í rauninni fólk.