154. löggjafarþing — 5. fundur,  18. sept. 2023.

atvinnuleysi meðal fólks af erlendum uppruna.

[15:54]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að klára það sem ég var að ræða áðan, það sem við getum kallað Plús tólf verkefnið. Það hafa um 2.000 manns farið í gegnum verkefnið eða eru í því akkúrat núna í þessum greiningarviðtölum og helmingur þeirra eru útlendingar. Þetta þýðir sem sagt að um 1.000 útlendingar hafa farið í gegnum prógrammið eða eru í því og 560 þeirra hafa þegar farið af listanum, þ.e. fengið atvinnu. Þannig að þetta er að skila árangri og gæti, held ég, gjörbylt því sem við erum að vinna að, að koma langtímaatvinnulausum af atvinnuleysisskrá. Sumt þessa fólks á ekki kannski endilega heima á atvinnuleysisskrá, ætti að vera í einhverjum öðrum stuðningskerfum okkar heldur en akkúrat því. Þar kemur þá að samskiptum við sveitarfélög og við erum ekki með samstarf við sveitarfélögin sérstaklega í tengslum við þetta verkefni, enda er það nýlega byrjað. En ég sé alveg fyrir mér (Forseti hringir.) samstarfsfleti á grundvelli þessa, einmitt til að reyna að koma í veg fyrir að (Forseti hringir.) fleiri fari mögulega á félagsþjónustu sveitarfélaga þegar þeim tíma er lokið sem þau hafa á atvinnuleysisskrá.