154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:43]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við getum öll verið sammála um að setja um þessar veiðar, sem aðrar, skýrar reglur og stuðla að því að innleidd sé sem best tækni við veiðarnar og að nýting á afurðunum sé með sem bestu móti. Það verður svo sem ekki sagt annað um afurðir af hvalveiðum en að þær séu gjörnýttar. Kjötið og spikið og margt fleira er selt erlendis. Þar er ágætur markaður fyrir það. Það hefur verið erfiðara að losna við lýsið þannig að þá er því bara brennt, lífrænu eldsneyti, á hvalveiðibátunum. Þannig er það. Þeir ganga fyrir hvallýsi að stórum hluta eða þónokkrum hluta. Lífrænt eldsneyti — ekki eru þeir að menga á meðan.

Þetta með jafnvægið í lífríkinu og þær fullyrðingar sem hafa komið fram, þær hafa auðvitað að hluta til verið hraktar. Auðvitað er sjálfsagt að gera rannsóknir á þessu en það er ágætt að kynna sér skýrslu Gísla heitins Víkingssonar, okkar helsta vísindamanns á þessu sviði til áratuga, blessuð sé minning hans, um afrán hvala. Það er ágætt að kíkja á það þegar þessum fullyrðingum er haldið til haga. Auðvitað þekkja menn það allir sem eru í einhverjum samanburði í þessum efnum að afrán á sér stað, hvort sem er í ám, vötnum, sjó, nú eða á landi en þá er oft talað um ofbeit. Auðvitað þarf að hafa þetta samræmi í nýtingunni til hliðsjónar. Það eru líka gríðarlega mikil verðmæti sem hvalirnir taka úr sjónum í formi sjávarmetis. Við þurfum að stilla saman strengi í nýtingu á þessum stofnum. Við höfum auðvitað sem sjálfstæð þjóð, (Forseti hringir.) hér á þessu svæði og hvar sem við værum, fullan rétt til að nýta auðlindir okkar (Forseti hringir.) og eigum að gera það með sjálfbærum og skynsamlegum hætti og að það skili sem bestum hagsbótum fyrir land og þjóð.