154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[13:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú gjarnan þannig í upplýsingaóreiðunni, sem hér er stundum m.a., að það fer ekki alltaf saman hljóð og mynd hjá þeim sem bæði skrifa og tala. Hér sagði hv. þingmaður að við ættum auðvitað að hlusta á vísindamennina, við ættum að fara eftir þeirra ráðum. Svo sagði hún í öðru orði að hún hefði engan vísindamann heyrt mæla með því að nota rafmagn við aflífun þessara dýra, þrátt fyrir að ég væri nýbúinn að segja henni og þingheimi og öðrum sem fylgjast hér með að það er viðurkennd aðferð sem er búið að skoða ítarlega í vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins þar sem sitja fulltrúar flestra þjóða. Vísindamenn frá flestum þjóðum og öðrum sem eiga aðild að ráðinu, á annað hundrað vísindamenn, ef ég man rétt, eru búnir að viðurkenna þessa aðferð til jafns við sprengiskutul. Eftir ítarlega þróun á þeim veiðibúnaði, rannsóknir og þróun, var fyrirtækið tilbúið með nýja og betri útgáfu fyrir þessa vertíð til að aflífa dýrin og ætlaði að gera það samhliða sprengiskutlunum í þeirri von að í framtíðinni gætum við lagt sprengjuskutulinn til hliðar og notað þetta sem einu aflífunaraðferðina, þá sömu reyndar og er notuð í öllum sláturhúsum landsins í dag til aflífunar á húsdýrum, nákvæmlega þá sömu, og er auðvitað viðurkennd þar.

Ég ætla bara að gera orð hv. þingmanns að mínum og biðja hana að koma með okkur inn í 21. öldina og nýja tækni og nýja þróun og horfa á það að við horfum á þetta út frá sjálfbærum (Forseti hringir.) sjónarmiðum á nýtingu á auðlindum sem við eigum, höfum aðgang að, (Forseti hringir.) í þágu þjóðarinnar og beitum til þess öllum nútímaaðferðum sem mögulegar eru og gerum þetta enn mannúðlegra heldur en það hefur verið hingað til þegar bornar eru saman veiðar á villtum dýrum.