154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:16]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég má til með að segja að mér finnst alltaf sérstaklega gaman þegar hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson kemur í pontu og dustar rykið af búfræðingnum í sér, talar hér um einmaga skepnur og fjölmaga og það er unun á að hlýða. Síðan kann ég líka að meta það að ákveðið næmi fylgir því að vera bóndi, ákveðin tilfinning fyrir því hvernig við umgöngumst dýr. Það skein svo í gegn í ræðu hv. þingmanns og ég heyri ekki betur en að við séum sammála um að dauðastríð hvala eigi að vera eins stutt og hægt er, eins og dauðastríð allra dýra sem er ákveðið að drepa. Þetta hélt ég nefnilega að við gætum öll verið sammála um. Vandinn er að ég sé ekki þær aðferðir fyrir framan okkur, þær hugmyndir neins staðar á blaði sem geta stytt dauðastríð stórhvela niður í eitthvað sem okkur líður vel með. Sjö mínútur að endurhlaða, sagði hv. þingmaður. Ef það næðist niður í þrjár mínútur, væri það í lagi? Ef hægt væri að vera með annan skutul við hliðina? Ég veit það ekki. Getum við farið í svona tilraunastarfsemi eða þarf kannski á einhverjum tímapunkti að draga strik í sandinn og segja: Nú þurfa dýrin bara að njóta vafans? Þessi nýja tækni sem menn sjá í hillingum er ekkert endilega að fara að skila neinu betra. Hvor á að njóta vafans, veiðimaðurinn eða dýrið? Ég hallast að því að það sé dýrið.