154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P) (andsvar):

Frú forseti. Tvennt langar mig að nefna til viðbótar. Hv. þingmaður fór yfir það sem mætti kalla atvinnufrelsisrök, að það þurfi að standa vörð um rétt þeirra sem vilja stunda hvalveiðar. Við þekkjum samt mýmörg dæmi þess að atvinnufrelsi er ekki óskorað og ekki ótakmarkað. Bændur eru vörslusviptir búfé ef þeir sinna því illa. Sláturhúsinu er lokað ef þar er gert að skepnum á opnu plani þar sem fuglar geta skitið yfir kjötið, eins og reyndin er uppi í Hvalfirði. Það er kannski erfitt að setja eitthvert samasemmerki á milli bónda sem gerir hluti svipað og hvalveiðimaður gerir þá, en ef bóndi væri að fara jafn illa með skepnu og hvalveiðimaður og væri að gera jafn illa að afurðunum og hvalstöðin þá væri viðkomandi ekki bóndi mikið lengur. Atvinnufrelsið skiptir þar engu máli.

Af því að hv. þingmaður klóraði sér í kollinum yfir því sem kallað er vistkerfaþjónusta hvala þá er náttúrulega samspil hvals og náttúru ofboðslega flókið og margslungið og örugglega miklu flóknara en við getum nokkurn tímann gert okkur í hugarlund bara út frá skepnum á einum bæ. Hvalurinn er hvort tveggja í senn dýrið og bóndinn, ber áburð á túnin og hvetur þannig til frumframleiðslu hjá þörungum í efstu lögum sjávar, fer síðan niður og étur eitthvað og er bara að færa áburðinn á milli. (Forseti hringir.) Um þetta eru náttúrlega til skýrslur sem hægt væri að gauka að hv. þingmanni ef hann hefði áhuga á.