154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:25]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sína ræðu og tek undir með hv. þm. Andrési Inga Jónssyni að það er alltaf gaman að hlusta á búfræðing í pontu. Verandi einn slíkur þá langar mig að spyrja hv. þingmann. Hann segir hér, og ég er hjartanlega sammála honum, að velferð dýra sé númer eitt, tvö og þrjú. Hér höfum við verið að ræða annars vegar veiðar á villtum skepnum og/eða slátrun húsdýra eða velferð þeirra heilt yfir. Nú er það svo að það hefur enginn ráðherra þessa málaflokks áður, þ.e. með breytingum á reglugerðum sem fyrst tóku gildi síðastliðið sumar, ráðist í jafn ítarlega söfnun á upplýsingum svo að við myndum betur gera okkur grein fyrir því hvernig þessar veiðar væru stundaðar. Af því að hv. þingmaður kemur inn á það sem við öll vitum, og er ekki einn um það, að leyfi til veiða á hval, annars vegar hrefnu og hins vegar langreyði, rennur sitt skeið um áramótin og hv. þingmaður kemur líka inn á að það sé brýnt að ræða þessi mál og munum við sjálfsagt gera það í aðdraganda áramóta, þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Telur hann þær upplýsingar og þau gögn sem aflað hefur verið í akkúrat þessu máli, þ.e. um veiðar á stórhvelum við Ísland, vera nægileg þannig að við séum eitthvað nær því að geta tekið frekari ákvarðanir þegar að því kemur hvort hægt sé að stunda hvalveiðar við Ísland frá og með næstu áramótum eða ekki? Þetta segi ég í beinu framhaldi af því að hann leggur til grundvallar sínu máli, sem ég tek undir, að velferð dýra sé númer eitt, tvö og þrjú þegar kemur að ákvörðunum í þessum málum.