154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[14:49]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir sitt svar. Við verðum bara að vera ósammála um uppleggið hjá Matvælastofnun eða það sem fram kom. En mig langar að halda mig við þessa háheimspekilegu umræðu sem hv. þingmaður vísaði í áðan varðandi dýravelferð. Ég held við séum á mjög svipuðum slóðum með afstöðuna til þessa, þ.e. að dýravelferð, svo fram sett í lögum eða í orðræðu og samskiptum fólks, er sannarlega mennskur mælikvarði. Hv. þm. Þórarinn Ingi Pétursson kom inn á það áðan að líklega sé ekki hægt að gera það með öðrum hætti enda notum við orðalagið að gera eitthvað með mannúðlegum hætti.

Þá langar mig aðeins að þykkja spurninguna til hv. þingmanns, í ljósi hans yfirferðar á 75. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. seinni hluti hennar: „Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Sér hv. þingmaður fyrir sér, með vaxandi umræðu í samfélaginu, ekki minnst um akkúrat það mál sem við erum að ræða hér og/eða vegna áhrifa mannsins á loftslagið, m.a. með neyslu á kjöti — það er bara umræða sem er mjög virk úti um allan heim og ekki minnst hér heima á Íslandi — að dýravelferð, skilgreind með ákveðnum hætti og alltaf mannsins, geti talist til ríkra almannahagsmuna?