154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[15:15]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram og það mál sem liggur hér fyrir. Ég hef svo sem ekkert legið á þeirri skoðun minni í þessari umræðu allri um hvalveiðar, sem hefur auðvitað verið mikil í samfélaginu núna yfir sumarmánuðina og í vor, að ég sé engin sérstök rök fyrir því að halda þessum veiðum áfram. Fyrir því eru í raun og veru margar ástæður, allmargar. Það hefur auðvitað verið tínt til hér í umræðunni, bæði í þingsal og úti í samfélaginu í sumar og margoft komið fram og liggur fyrir skjalfest, vottað og staðfest, að þjóðhagslegur ávinningur af þessum veiðum er bara hverfandi. Þetta er ekki eitthvað sem skiptir neinu máli í þjóðhagslegum skilningi. Auðvitað skiptir þetta máli fyrir það fólk sem hefur atvinnu af veiðunum yfir þessa mánuði á ári sem þær eru í gangi, við skulum ekki gera lítið úr því. Við skulum heldur ekki gera lítið úr því að það eru einhver fyrirtæki sem eru starfandi sem þjónusta þennan iðnað, ef má kalla hann svo, og við eigum auðvitað að bera virðingu fyrir því og allt það en í þessu stærra þjóðhagslega samhengi er þetta atvinnugrein sem skiptir mjög litlu máli. Það eru ein rök.

Önnur rök gætu verið þau að orðsporsáhætta Íslands út á við skaðist við þetta. Ég held að það sé alveg augljóst líka. Það á hins vegar ekkert að vera eitthvað sem hefur einhver bein áhrif á það hvernig við högum okkar málum. Við höfum sjálfdæmi um það og þurfum ekki að lúta neinum vilja eða áliti annarra í því. Mér finnst hins vegar sjálfsagt að taka tillit þess. Mér finnst alveg sjálfsagt að taka tillit til þess þegar við erum með atvinnugrein sem skiptir þó ekki meira máli í þjóðhagslega samhenginu en getur haft slæm áhrif á orðspor landsins, þá finnst mér það vera rök sem við eigum að taka inn í jöfnuna. Mér finnst að við eigum að skoða það mjög klárt út frá því líka. Það væri svolítið að stinga höfðinu í sandinn að gera það ekki. Menn hafa talað svolítið fjálglega um þetta, að við eigum ekki að láta einhverja leikara í Hollywood segja okkur fyrir verkum, við séum sjálfstæð þjóð og eigum rétt til að veiða. Það má alveg leggja hlutina þannig upp, það er hins vegar ekkert sem segir að við séum skyldug til að veiða. Það er ekkert sem knýr á um það að við séum að veiða út af þessu sem ég rakti áðan með efnahagslegu rökin. Þetta auðvitað allt saman verðum við að vega og meta bara svolítið í samhengi. Þess vegna var það, svo ég segi það nú bara heiðarlega, svolítið hjárennilegt í sumar, fannst mér, og hjákátlegt að menn skyldu tromma alltaf þannig upp með málflutninginn að þetta snerist einhvern veginn bara nánast um fullveldi okkar eða snerist bara um sjálfsákvörðunarréttinn okkar, eins og það væri einhver knýjandi þörf fyrir okkur að veiða hvali af því að þeir eru syndandi hérna einhvers staðar í nágrenni við landið. Það er ekkert þannig.

Ég er hins vegar líka þeirrar skoðunar að þetta hagsmunamat, þegar við erum að tala um eitthvert orðspor eða efnahagslega samhengið eða annað — það er bara umræða sem þarf að bíða á meðan við erum ekki búin að svara þeirri spurningu með nægilega góðum hætti hvort það sé hægt að veiða hvali án þess að ganga á svig við almenn sjónarmið og lög um dýravelferð. Það er auðvitað grundvallarspurningin. Það er spurning númer eitt sem við þurfum að svara áður en við tökumst á við hin rökin, vegna þess að við getum ekki notað einhver efnahagsleg rök eða einhverjar tilvísanir um atvinnufrelsi í lög og stjórnarskrá þegar við erum á þeim stað að við getum ekki veitt þessi dýr öðruvísi en að kvelja þau. Þarna höfum við auðvitað gögn, skýrslur og samantekt sem leiðir okkur nákvæmlega þangað að þessar veiðar geta ekki farið fram, að mínu mati vegna þess að sjónarmið dýravelferðar eiga að útiloka það. Svo einfalt er það. Síðan getum við tekist á um hin rökin. En það er bara einfaldlega ekki komið að því, finnst mér.

Nú er það auðvitað þannig þegar menn eru að takast á um dýravelferðina og það hvort það sé eðlilegt að veiða þessar stórkostlegu skepnur að þá fara menn oft í þetta: Er ekki loðnan í sjónum? Kvelst hún ekki í nótinni? Þurfum við ekki að horfa til aðbúnaðar dýra eða fiska þegar er verið að veiða á öngul? Allt þetta. Á bak við það allt saman stendur einhvers konar röksemd um það að eitt eigi yfir allar dýrategundir ganga og við eigum auðvitað að koma vel fram við allar dýrategundir. En það er þannig, og menn mega alveg kalla þetta tilfinningarök, að við hugsum ekki eins um allar dýrategundir. Ég hugsa að bóndinn í fjárhúsinu hugsi öðruvísi um lömbin og kindurnar heldur en kóngulærnar og járnsmiðina eða músina úti í haga. Þá má alveg kalla þetta einhvers konar tegundarasisma og tilfinningarök. Mér finnst þetta hins vegar mjög raunveruleg rök sem þarf að taka tillit til. Hvalir eru stórkostlegar skepnur, stórar skepnur sem við hrífumst af þegar við sjáum þær í hafinu, alveg eins og við gerum með stór spendýr á landi og á meðan við getum ekki staðið í því að veiða hvali án þess að vera búin að ganga þannig um hnútana að við séum ekki að meiða eða kvelja dýrin þá eigum við ekki að vera að veiða þau.

Ég er hins vegar alveg sammála þeim sem gagnrýndu matvælaráðherra í þessari umræðu á vormánuðum og í sumar um það hvernig var staðið að því að slá veiðarnar af svona að mestu leyti í sumar. Mér fannst ekki vel að verki staðið þar. Þegar er verið að stöðva atvinnugreinar, þegar er verið að koma með svona íþyngjandi ákvörðun þar sem undir er atvinnugrein, og þó að ég sé ekki hrifinn af atvinnugreininni er þetta samt atvinnugrein, þar sem fólk hefur atvinnu, þar sem fyrirtæki eru bæði í starfsemi í kringum þetta og allt annað, þá finnst mér mjög hæpin stjórnsýsla að það sé hægt að gera þetta með jafn litlum fyrirvara og var gert af hálfu matvælaráðherra. Mér finnst að svona stór og íþyngjandi ákvörðun fyrir fyrirtæki, fleiri en eitt, og fyrir fjölda starfsmanna þurfi að vera betur undirbyggð og það þurfi að vera meiri fyrirvari á. Þarna geta menn auðvitað sagt á móti að það hafi alla vega í einhverjum tilfellum verið gerð athugasemd við eitt og annað í starfsemi fyrirtækisins sem heldur úti þessari starfsemi þannig að menn hefðu alveg getað sagt sér að þetta gæti komið til og því hafi í raun og veru verið einhver fyrirvari. En mér finnst það ekki alveg nægjanlega mikil rök. Þess vegna er það þannig að þó að ég sé sammála því að við eigum ekki að veiða hvali þá finnst mér að við þurfum að gæta að því hvernig við komum í veg fyrir hvalveiðarnar. Þetta frumvarp auðvitað leiðir í jörð í eitt skipti fyrir öll þá hugmyndafræði alla og þau álitaefni. Það er því ekkert annað að gera en að samþykkja það hér.

Það er annað sem ég myndi vilja nefna í þessu samhengi líka og það er að ég held að sumpart hafi þetta hvalveiðimál sprungið svona svakalega upp í sumar, orðið að þessu fári sem það varð, vegna þess að ríkisstjórnarflokkunum fannst ákveðið skjól í því. Við erum í efnahagsástandi sem dregur upp dökka og versnandi mynd af stöðu heimila í landinu. Við erum að kljást við óskaplega háa vexti. Við erum að kljást við mjög háa verðbólgu sem gengur illa að slá á. Við vitum að samsetning þessarar ríkisstjórnar gerir það að verkum að menn eru svolítið að róa í sitthvora áttina og ég held að tveir flokkar í það minnsta í þessu stjórnarsamstarfi, VG og Sjálfstæðisflokkur, hafi svolítið notað þetta mál sem skjól gagnvart hinu og þess vegna hafi umræðan um þetta orðið svona mikil eins og raun ber vitni. Síðan er það auðvitað þannig að það hefur alltaf verið þannig á Íslandi, a.m.k. lengi, að þessar veiðar eru gríðarlega umdeildar. Mig langar að nefna það aftur að við eigum ekki að gera lítið úr því sem menn kalla tilfinningarök í þessari umræðu. Við eigum bara alls ekki að gera lítið úr því. Við eigum að taka það sem gilda röksemd í þessu máli. Við eigum að horfa til þess að það er þannig að úti um alla heimsbyggðina þá er þetta tilfinningahlaðið mál. Dýravelferðarsjónarmið og dýravelferð almennt, það eru miklar tilfinningar í þessu. Ég held að það sé bara inngróið í okkur mannskepnuna að við viljum auðvitað þótt við séum að nýta einhverjar stofna geta a.m.k. gert það án þess að ganga þannig um að við séum að meiða dýrin og kvelja þau, að dauðastríðið vari jafn vel klukkutímum saman, að það þurfi að skjóta sprengiskutlum í dýrin oftar en einu sinni. Það er eitthvað sem við viljum ekki hafa. Á bak við það er auðvitað ekkert annað en bara glerharðar tilfinningar fólks þannig að við þurfum að bera virðingu fyrir þeim rökum í þessari umræðu.

Ég verð líka að fá að nefna af því að menn vísa mikið í atvinnufrelsið og það allt saman, og gott og vel, það er auðvitað eitthvað sem við viljum hafa í hávegum, að atvinnufrelsi hérna á Íslandi sé virt, en eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar þá er ekkert sem segir að okkur sé það beinlínis skylt eða við eigum að veiða hvali þó að þeir syndi hérna í lögsögunni í kringum landið. Það er bara ofur einfaldlega þannig. Því fagna ég því mjög að þetta mál sé komið fram og auðvitað þurfum við að taka ákvörðun um það til lengri tíma hvort það eigi að leyfa þessar veiðar áfram eða banna þær. Ég veit alveg nákvæmlega hvorum megin ég er. Ég vil ekki hafa þessar veiðar í gangi og það er bara nákvæmlega vegna þess að við höfum við ekki getað bundið þannig um hnútana að þetta standist öll þau viðmið og gildi, lög og reglur sem okkur finnst að eigi að gilda um dýravelferð. Á meðan við erum ekki búin að klára þá umræðu og ekki er komin með fast land undir fætur þar þá auðvitað ýtir það öllum öðrum vangaveltum um þessa atvinnugrein á brott, vegna þess að við getum ekki notað efnahagsleg rök eða einhver önnur rök sem einhvers konar réttlætingu fyrir því að við förum illa með dýr. Það held ég að við hljótum að geta sammælst um.

Ég fagna því mjög að þetta mál sé komið fram og að þetta sé til umræðu hérna í þingsalnum. Ég fagna því mjög að þetta mál opinberar í enn eitt skiptið hversu getulítil ríkisstjórnin er í að stjórna þessu landi. Það er auðvitað algjörlega með ólíkindum að flokkar séu í samstarfi sem koma sér ekki saman um nokkurn skapaðan hlut, hvort sem það eru hvalveiðar, efnahagsmál, heilbrigðismál, orkumál eða hvað það er. Þetta er bara enn einn bautasteinninn og varðan í þeirri sögu og vegferð allri að þessi ríkisstjórn nær ekki saman um mál og getur þar af leiðandi ekki stýrt landinu eins og þarf að stýra því akkúrat núna; af einhverri festu, ekki síst í efnahagslegu tilliti. Ég fagna málinu og styð það heils hugar.