154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

bann við hvalveiðum.

99. mál
[15:47]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Frú forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu, sem hefur staðið í þrjár klukkustundir, kannski aðeins gefa okkur tíma til að velta því fyrir okkur hvort þetta sé ekki sennilega í fyrsta sinn sem bann við hvalveiðum er rætt á þennan hátt í þessum sal. Þau þingmál sem hafa verið borin fram á síðustu árum og áratugum hafa snúið að því að meta efnahagsleg áhrif, þetta hafa verið þingsályktunartillögur um að spá og spekúlera. Þetta er í fyrsta sinn sem þingið stendur frammi fyrir umræðunni um það hvort okkur langi að veiða eða vernda.

Ég verð að segja að mér hefur þótt umræðan góð. Við erum ekki öll sömu skoðunar, þó það nú væri, en hér hafa komið fulltrúar flestra flokka og lýst sínum sjónarmiðum og bara þótt fyrr hefði verið. Við hefðum kannski þurft að eiga þetta samtal í þessum sal fyrir fimm árum eða tíu árum, jafnvel fyrr. Við hefðum kannski þurft að eiga þetta samtal fyrir, nú þarf ég að reikna, 18 árum, rétt áður en hvalveiðar voru settar af stað aftur með reglugerð, vegna þess að hættan sem við búum við þegar við erum með úreltan lagabókstaf, eins og lög um hvalveiðar frá 1949, er að það er alltaf undir geðþótta ráðherra hvers tíma komið hvað er gert. Ég er nefnilega alveg sammála þeim sem segja að stóra ákvörðunin um framtíð hvalveiða eigi að vera tekin hér í þessum sal. Þess vegna þurfum við að ákveða fyrir okkar parta hvort ráðherra hafi þetta vald í höndunum eða ekki. Ég vil, eins og frumvarpið ber með sér, að þetta vald verði tekið af ráðherra og hvalir verði færðir undir vernd villidýralaga.

Varðandi framhald málsins þá langar mig rétt að nefna, vegna þess að það er kominn upp ágreiningur milli mín sem fyrsta flutningsmanns og forseta varðandi það til hvaða nefndar þetta frumvarp á að ganga, að mín tillaga var að málið myndi ganga til umhverfis- og samgöngunefndar. Fyrir því hafði ég helst tvenn rök, annars vegar það að frumvarpið snýst í grunninn um að færa hvali undir villidýralög, sem heyra skýrt undir þá nefnd. Þar að auki er samkvæmt þingmálaskrá von á heildarendurskoðun þeirra laga frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þannig að það færi vel á því að hafa þessi mál til umfjöllunar í sömu nefnd sem snerta sama lagabókstaf. Þar að auki fann ég aðeins eitt fordæmi í nýlegri þingsögu fyrir sambærilegu máli sem er þingsályktunartillaga í 83. máli á 141. þingi, tillaga til þingsályktunar um gagngera endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða, þar sem er tekið á alls konar þáttum, heildarhagsmunum, efnahagslegum hagsmunum, dýraverndarsjónarmiðum, alþjóðlegum skuldbindingum; púsl sem eiga hvert um sig undir hinar ýmsu nefndir þingsins en þarna ákvað þingið á 141. löggjafarþingi að vísa málinu til umhverfis- og samgöngunefndar.

Ég verð að viðurkenna að þvergirðingsháttur forseta, ekki þess sem situr á forsetastóli núna heldur Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, varðandi þetta kom mér dálítið á óvart. Ég á því ekki að venjast að forsetar séu í miklu reiptogi um það hvert mál ganga ef færð eru góð rök fyrir því að þau eigi heima í einhverri nefnd en þar við situr. Því verður atkvæðagreiðsla um nefndarvísunina væntanlega á þingfundi von bráðar. Hvernig sem það fer þá bara treysti ég því, miðað við umræðurnar þar sem við höfum heyrt sjónarmið fólks úr báðum þeim nefndum sem gætu orðið fyrir valinu, að þingleg meðferð þessa máls verði með ágætum. Ég ber ekki þá von í brjósti, eins og hv. þm. Bergþór Ólason, að þetta mál muni daga uppi í nefnd heldur einmitt að það geti komið hingað til 2. umræðu og enn dýpri og betri sem fyrst.