154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

grænir hvatar fyrir bændur.

43. mál
[16:03]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur fyrir ljómandi flutning á þessari þingsályktunartillögu sem hér um ræðir, um græna hvata fyrir bændur. Mig langar að koma aðeins inn í þessa umræðu hvað það varðar og taka undir með hv. þingmanni og þeim flutningsmönnum sem að þessu máli standa um mikilvægi þess að láta hendur standa fram úr ermum í þessu máli því að verkefnið er ærið og við eigum mikið af landi sem við getum grætt. Sömuleiðis eigum við mikið af landi þar sem við getum plantað skógi og ég minni á að í þessu samhengi var lögð fram á síðasta löggjafarþingi, í svipuðum anda, þingsályktunartillaga sem sneri að þjóðarátaki í landgræðslu og skógrækt.

Ég fagna því sérstaklega hvað það varðar að það er verið að koma hér inn á að greiða mönnum fyrir þá vinnu sem menn hafa lagt til við landgræðsluna. Það er þannig í dag í gegnum bæði verkefnið Bændur græða landið og í gegnum Landbótasjóð að þá hafa bændur, fyrst og fremst bændur í sjálfu sér, lagt til tæki og tól og vinnu endurgjaldslaust og fengið hluta, 60% sirka, greiddan af áburðarkostnaði. Þetta samstarfsverkefni hefur verið við lýði í ja, 20 og eitthvað ár, ég man nú ekki alveg akkúrat hvenær það byrjaði, og hefur mikill árangur verið af því. Öðruvísi horfir svo sem við um verkefni sem snúa að Landbótasjóði. Þau eru annars eðlis en á mjög svipaðan hátt er það að bændur hafa lagt þar til sjálfboðavinnu fyrst og fremst við þá vinnu. Aftur á móti hefur Landgræðslan lagt til áburðinn að fullu í því verkefni.

Það hafa átt sér stað mjög miklar breytingar, t.d. hvað fjölda sauðfjár varðar hér á landi. Síðan 2016 hefur vetrarfóðruðu sauðfé fækkað um sirka 100.000 sem er gríðarlegt. Nú er svo komið að við erum komin að ákveðnum sársaukamörkum hvað það varðar og fé má í sjálfu sér ekki fækka meira. Það er kannski þá eini punkturinn sem ég tek ekki undir í þessari þingsályktunartillögu, að biðja menn um að fækka fé. En aftur á móti þá tel ég, og það hefur verið sýnt fram á það og það þekkist mjög vel, að þeir sem hafa lagt hvað mest á sig við uppgræðslu á landi eru sauðfjárbændur, starfandi sauðfjárbændur sem hafa séð hag af því að hlúa að landinu. Við þekkjum það sem höfum staðið í þessum verkefnum að það er hægt að ná ótrúlegum árangri við uppgræðslu á landi þrátt fyrir að maður friði það ekki. Með hóflegri beit er hægt að ná alveg ótrúlegum árangri, bara með nettri áburðargjöf og sömuleiðis erum við náttúrlega að horfa til þess að við erum með hálfgerða beitarstýringu á þessu, hvenær fé er sleppt á og svoleiðis.

En mikilvægi þess að ráðast í svona átak held ég að verði seint metið til fjár því að tölurnar sem koma hér fram hjá hv. þingmanni eru mjög stórar og verðmætin eru þarna ótvíræð. Við getum með samstilltu átaki — og ég er ekkert alveg viss um að við þurfum endilega að kosta miklu til, þ.e. þegar menn hafa verið að greiða mönnum fyrir. Ég held að allir þeir sem hafa áhuga á að nýta land eða þá að hlúa að því komi til með að leggja hönd á plóg og þetta snýst fyrst og fremst um fjármuni til áburðar- og frækaupa eða til kaupa á trjám til að gróðursetja. Ef þetta verður t.d. samstillt átak, segjum bara hálfgert þjóðarátak eða eitthvað þannig, þar sem við fengjum fleiri að, fyrirtæki, einstaklinga — og það er fjöldinn allur af einstaklingum, hef ég grun um, í þéttbýli landsins sem myndu glaðir vilja helga sér einhver svæði og hlúa að þeim uppi á hálendinu eða hvar sem er.

Ef við horfum bara til þess að þessi þingsályktunartillaga gangi eftir og aðrar góðar tillögur sem eru í farvatninu þá gætum við sett okkur ákveðin markmið þar sem við myndum vinna markvisst að uppgræðslu á landi. Þetta er risaverkefni vegna þess að tölulega í hekturum talið eru þetta einhverjar þúsundir hektara sem hægt væri að ráðast í. Eins og maður segir, það yrði ekki neinn stórkostlegur kostnaður af því hvað varðar girðingar eða eitthvað annað, því að landfræðilega er það bara þannig að fé hefur fækkað það mikið á sumum svæðum að það hefur engin teljanleg áhrif þó að nokkrar kindur séu að þvælast þarna um. Þá er sömuleiðis að færast enn meira í vöxt að bændur hafi haldið sínu fé bara heima til að þurfa ekki að eyða tíma í leitir á haustin og það hefur verið að færast í vöxt upp á síðkastið.

Virðulegur forseti. Mig langaði bara að koma hérna upp og taka undir með hv. flutningsmanni Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur um mikilvægi þess að ráðist sé í ákveðnar aðgerðir. En hv. þm. Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir veit það svo sem að sá sem hér stendur er enginn sérstakur áhugamaður um endurheimt votlendis þannig að ég læt það liggja á milli hluta, en það er margt hægt að gera. Ég ber mikla virðingu fyrir og fagna hverjum þeim sem hoppa á vagninn, skulum við segja, í þessu verkefni því að þetta hefur verið við lýði í fjölda ára og því miður hefur fækkað í bændastétt mjög víða og það þarf fleiri hendur á dekk. Því fagna ég þessu mjög og ég vona að þingheimur taki undir með okkur í þessu verkefni því að verkefnið er ærið og nóg er af landi til að græða upp hvort sem er með grasi eða trjám.