154. löggjafarþing — 8. fundur,  21. sept. 2023.

estimpilgjald.

104. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Það er mér mikil ánægja að fá að mæla fyrir þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 138/2013. Ásamt þeim sem hér stendur flytja þetta mál hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson og Jón Gunnarsson. Þetta mál hefur verið flutt nokkrum sinnum áður en ég vona að það fái aukna meðferð núna, sérstaklega á þeim tímum sem við lifum þar sem húsnæðismálin gætu verið í betra standi. Ég held að þetta mál sé einmitt gert til þess að hjálpa við svona aðstæður.

Með frumvarpinu er lagt til að stimpilgjald vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði verði afnumið. Sama gildi um kaup einstaklinga á lögbýli líkt og hugtakið er skilgreint í 7. mgr. 2. gr. jarðalaga, nr. 81/2004. Það er einmitt nýtt í málinu að lögbýli séu hluti af þessu, að menn falli frá stimpilgjöldum til að reyna að ýta undir nýliðun. Ég fer betur yfir nýliðun í landbúnaði á eftir, eins og var kannski aðeins rætt í málinu á undan. Einstaklingum ber nú almennt að greiða 0,8% stimpilgjald vegna kaupa á íbúðarhúsnæði en þó er veittur helmingsafsláttur þegar um fyrstu kaup er að ræða. Verði frumvarpið að lögum mun gjaldið falla alfarið niður vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði og lögbýlum og undanþágan verður ekki bundin við fyrstu kaup.

Markmið frumvarpsins eru að auðvelda fólki að afla sér íbúðarhúsnæðis eða hefja landbúnað og auka skilvirkni og flæði á markaði með íbúðarhúsnæði. Mikil þörf er á að auðvelda fólki eins og frekast er unnt að eignast íbúðarhúsnæði, einkum við aðstæður á borð við þær sem nú ríkja á húsnæðismarkaði. Þá eru stimpilgjöld orðin úrelt skattheimta sem hefur takmörkuð áhrif á ríkissjóð. Þegar gildandi lög um stimpilgjöld voru samþykkt á Alþingi kom m.a. fram í áliti efnahags- og viðskiptanefndar: „Standa vonir nefndarinnar til þess að frumvarpið verði fyrsta skrefið af mörgum í lækkun stimpilgjalda sem á endanum muni leiða til afnáms þeirra.“ Þáverandi efnahags- og viðskiptanefnd lagði til þá breytingu að helmingsafsláttur yrði veittur af gjaldinu vegna fyrstu fasteignakaupa. Nú þegar bráðum áratugur er liðinn frá samþykkt gildandi laga um stimpilgjald þykir rétt að halda áfram þeirri vegferð sem þá var lagt upp í um afnám stimpilgjalds vegna fasteignakaupa til fulls.

Sýnt þykir að stimpilgjald hækki viðskiptakostnað á fasteignamarkaði, dragi úr framboði og rýri hlut kaupenda og seljenda. Þá benda rannsóknir til þess að stimpilgjald hafi skaðlegri áhrif á velferð en aðrar tegundir skattheimtu. Af framangreindu má ætla að afnám stimpilgjalds af fasteignaviðskiptum muni auðvelda verðmyndun á húsnæðismarkaði með tilheyrandi aukningu á framboði sem hefur verið með minnsta móti undanfarin ár. Þá er afnám stimpilgjalds vegna fasteignakaupa til þess fallið að minnka kostnað fyrir heimili við að skipta um húsnæði, hvort sem er fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig eða barnafjölskyldur sem þurfa stærra húsnæði.

Hér held ég að sé um mjög mikilvægt mál að ræða. Ég skal alveg viðurkenna að þau áform sem eru uppi hjá ríkisstjórninni um stuðning og eflingu á húsnæðismarkaði, því að það verður eitt af stóru málunum í kjarasamningsgerð og öðru slíku, miðast miklu meira við leigumarkaðinn og félagslegt húsnæði og alls kyns svoleiðis útfærslur en ekki það sem yfir 90% landsmanna vilja, að búa í eigin húsnæði. Hlutdeildarlánin eru vissulega einn þáttur í húsnæðisstuðningi stjórnvalda sem styður við séreignarstefnuna, eða að fólk fái að eignast sitt eigið húsnæði, sem er vel en ég held að við þurfum að gera enn þá betur þar. Það er fátt sem virkar betur til þess heldur en einmitt afnám á stimpilgjöldum sem setja oft stórt strik í reikninginn við fasteignakaup og fasteignasölu.

Það var mikilvægt að bæta nýjum lögbýlum inn. Við erum að tala mikið um kynslóðaskipti í landbúnaði og þetta auðveldar þau og hjálpar nýju fólki að byggja sveitir landsins og koma undir sig fótunum við þau mikilvægu störf sem þar eru. Þetta er náttúrlega bara af sama meiði, þegar þú kaupir lögbýli ertu einmitt að kaupa þér fasteign til að búa í. Það er náttúrlega íbúðarhúsnæði og stór partur af þeim kaupum þegar maður er að fara að stunda búrekstur. Það var því mikilvægt að bæta því inn.

Fyrstu íbúðarkaupendur fá helmingsafslátt núna og var það talin mikilvæg aðgerð. Ég held að það væri bara enn mikilvægari aðgerð ef fyrstu íbúðarkaupendur þyrftu ekki að borga neitt stimpilgjald. Það er oft svo með fyrstu íbúðarkaupendur að þeir kaupa smátt, sníða sér stakk eftir vexti, en svo stækkar fjölskyldan og börnunum fjölgar, eins og við viljum og leggjum mikið upp úr, að fá sem flest börn í heiminn, og þá getur það náttúrlega orðið mjög mikill kostnaður að þurfa að stækka við sig í húsnæði og vera búinn að fá helmingsafslátt af stimpilgjöldunum. Þannig að til að hjálpa fólki að þróa og stækka húsnæði í takt við stækkun fjölskyldunnar er mikilvægt að afnema stimpilgjöld.

Svo að það sé þá til íbúðarhúsnæði fyrir þann hóp sem er fjölskyldufólk með börn, þar sem slíkum lóðum er nú ekki útdeilt, sérstaklega ekki hér á höfuðborgarsvæðinu, svo að það sé hægt að byggja húsnæði sem hentar stærri fjölskyldum, þá þurfum við líka að afnema stimpilgjöldin og auðvelda hreyfingu á markaði fyrir þá sem eru ekki lengur með börn á framfæri og vilja minnka við sig aftur. Ég held að þetta geti hjálpað. Ef þau sjá hag sinn í því að selja húsnæðið sem þau voru í með fjölskylduna meðan börnin bjuggu heima, ef þau sjái hag sinn í að selja það og fara í minna húsnæði þá losnar um fyrir fjölskyldufólkið og svona getur þetta sett góðan kapal af stað sem hjálpar öllum.

Því tel ég ekki eftir neinu að bíða með að afnema þennan óþarfa skatt sem skapar ríkissjóði engan kostnað. Ég vona það, hvort sem það verður með því að taka þetta mál til meðferðar og afgreiða það eða bara einfaldlega að gera breytingar á þessu samhliða því sem fjallað er um bandorminn eða tekjuöflunarfrumvörpin í haust — ég sætti mig alveg við að sú leið verði farin líka. Ég bara kalla eftir fullum stuðningi þingheims við þetta frumvarp.