154. löggjafarþing — 10. fundur,  28. sept. 2023.

almannatryggingar.

111. mál
[16:15]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P):

Forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, sem nefnist raunleiðrétting. Meðflutningsmenn mínir eru Andrés Ingi Jónsson, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Gísli Rafn Ólafsson, Guðbrandur Einarsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Halldóra Mogensen, Inga Sæland, Jakob Frímann Magnússon, Oddný G. Harðardóttir, Tómas A. Tómasson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Heil 27% af þinginu ef við undanskiljum ráðherranna sem er alveg ómögulegt að fá sem meðflutningsmenn á þingmannafrumvarp. Það er gaman að sjá svona mikinn stuðning við við frumvarp í meðflutningi og ég býst fastlega við því að aðrir sem náðu ekki að kíkja á frumvarpið nægilega vel til að skrifa sig sem meðflutningsmenn myndu styðja málið í þingsal, enda er það í rauninni mjög einfalt þegar allt kemur til alls.

Í dag er fyrirkomulagið í þessari svokölluðu 69. gr. laga um almannatryggingar, sem er núna 62. gr. eftir að búið er að endurskipuleggja lögin, það að lífeyrir almannatrygginga skuli hækka í takt við launaþróun en þó aldrei minna heldur en vísitala neysluverðs. Þessi tvö skilyrði búa til lágmarkið um það hversu mikið lífeyrir almannatrygginga á að hækka; ellilífeyrir, örorkubætur, endurhæfingarlífeyrir, ýmislegt svoleiðis. Þegar við lendum í þeirri stöðu að þurfa að treysta á framfærslu samfélagsins þá erum við með skilyrði um það hvernig sá lífeyrir á að þróast til að halda í við verðlag eða, eins og er gert ráð fyrir í lögum, að halda í við launaþróun, að sjálfsögðu. Fólk á almenna markaðnum og opinbera markaðnum gerir kjarasamninga um kjarabætur, um betri lífskjör, en þessi hópur sem er á framfærslu almannatrygginga er ekki með verkfallsrétt, hann getur ekki farið og samið um kaup og kjör og um réttindi sín. Þannig er eðlilegt að það sé sett í lög að lífeyrir fylgi einfaldlega bara launaþróun allra hinna sem hafa samningsrétt, þ.e. lágmarkið.

Hins vegar hefur það gerst síðan þessi lög voru sett árið 1997 — ég er með töflu í frumvarpinu sem sýnir hvernig launavísitalan hefur þróast frá 1997, hvernig verðbólga hefur þróast og hvernig örorkulífeyrir hefur þróast. Þetta er pínu flóknara varðandi ellilífeyrinn því að það var gerð kerfisbreyting 2016 sem skekkti aðeins framsetninguna og þar er erfiðara að sýna þróunina frá 1997, hún er ekki alveg eins samanburðarhæf. Það er auðveldara aðgengi að gögnum í þessu tilfelli og taflan sýnir að kjaragliðnunin hefur verið vegna þess að lífeyrir almannatrygginga hefur ekki haldið í við launaþróun. Hækkun örorkulífeyris hefur verið meiri en verðbólga, sem betur fer, en lægri en launavísitalan og munar mjög miklu, frá 1997 eru það 64%. Lífeyrir almannatrygginga ætti að vera 64% hærri, þ.e. örorkulífeyrir, til að halda í við launaþróun frá árinu 1997.

Þegar við fjöllum aðeins um það hvað lágmarkið ætti að vera þá höfum við séð það einmitt í frumvarpi frá Flokki fólksins að það ætti að vera 350–400 þús. kr. skatta- og skerðingarlaust að lágmarki og ef lífeyrir hefði hækkað, væri þessum 64% hærri, þá væri talan u.þ.b. á þeim stað. Vandinn sem við glímum við er í rauninni sá að það hefur ekki verið farið eftir lögum um að lífeyrir eigi að þróast samkvæmt launaþróun, það sé lágmarkið nema ef verðbólgan verður hærri. Þá er tvöfaldur lás eins og það er kallað, verðbólgan kemur inn í staðinn.

Af hverju hefur ekki verið farið eftir lögum? Rosalega áhugaverð spurning. Þegar við reynum í nefndum að spyrja ráðherra eða ráðuneytisfólk um það af hverju lífeyrir hækkar ekki í takt við launaþróun, þá eru svörin mjög stór útúrsnúningur. Þau hengja sig á það að í lögum um almannatryggingar stendur að það eigi að uppfæra í fjárlögum hvers árs miðað við launaþróun. Þá hugsa þau þetta þannig: Nú erum við að vinna með fjárlagafrumvarp 2024 og þá gerir fjármálaráðuneytið spá um launaþróun á árinu 2024, gott og vel, þá hækkar lífeyrir almannatrygginga samkvæmt þeirri spá fyrir árið 2024. Síðan gerist 2024 og eins og alltaf — í öll þessi ár, frá 1997, 1998, 1999, hefur það gerst kannski sex sinnum að spáin hafi verið öðruvísi — þá er þessi spá ítrekað lægri heldur en það sem gerist á árinu. Við það verður þessi kjaragliðnun. Fjármálaráðuneytið segir: Það verður 5% hækkun á næsta ári. Svo verður 7,5% hækkun í launaþróun, en það er ekki lagað. 2,5% á því ári, 2,5% á næsta ári eftir það o.s.frv., þangað til við erum komin í 64,12% miðað við stöðuna eins og hún var í júlí á þessu ári, miðað við þá útreikninga sem ég fékk og töflu sem ég fékk upprunalega frá rannsóknaþjónustu Alþingis, búinn að framreikna eða bæta við nokkrum árum síðan þá en þetta er einhvers staðar á þessu róli. Það sem hefur verið gert á undanförnum tveimur árum og er mjög áhugavert er að vegna verðbólgu, miklu hærri verðbólgu en var gert ráð fyrir, hefur verið bætt í lífeyri almannatrygginga eftir á. Það er út af vanáætlaðri verðbólgu. En það hefur aldrei verið bætt í eftir á út af vanáætlaðri launaþróun.

Þarna kemur ráðuneytið líka og segir að launavísitalan sé gagnslaus til að nota í þessu samhengi. Hvaða launaþróun eigum við að nota? En á næstu glæru sem þau sýna okkur er launaþróun, miðað við t.d. þróun á íbúðaverði eða eitthvað því um líkt, launaþróunin er svona og þróun íbúðaverðs er svona og skuldir hafa þróast svona. Þá bendir maður á þetta og segir: Hérna notið þið launaþróun samkvæmt launavísitölu en í glærunni á undan þar sem var verið að fjalla um almannatryggingar notið þið ekki þessa launaþróun. Af hverju? Aftur er þá vísað í að þau eigi bara að gera það samkvæmt spám fyrir næsta ár. En þarna eru þau að nota launaþróun.

Þetta er vandinn í hnotskurn. Það vantar, og þetta hefur umboðsmaður Alþingis gert athugasemd við, hvaða skilgreiningu á launaþróun á að nota. Af því að skilgreininguna vantar, ótrúlegt en satt, þá ákveður ráðuneytið að nota eitthvert viðmið, einhverja spá, kannski byggða á einhverjum kjarasamningum sem eru í gangi, við fáum ekki að vita það með neinni nákvæmni, sem er áhugavert út af fyrir sig líka. Það þýðir að við þurfum að bæta við í lögin skilgreiningu á launaþróun af því að ráðuneytinu er greinilega ómögulegt að gera það sjálft.

Það er það sem þetta frumvarp gerir. Það bætir við skilgreiningunni á því hvaða launaþróun á að miða við. Sú skilgreining er mjög einföld þegar allt kemur til alls. Alþingi hefur samþykkt þessa skilgreiningu áður. Það er sama skilgreining og þingmenn búa við. Við tökum einfaldlega þá skilgreiningu sem þingmenn fá á því hvað sé almenn launaþróun, í opinbera geiranum að vísu, en allt í lagi, og afritum það í lög um almannatryggingar, höfum það sama þar. Þá erum við komin með skilgreiningu sem þingmenn fá. Af hverju geta lífeyrisþegar ekki fengið sömu skilgreiningu? Það hefði hækkað lífeyri almannatrygginga þó nokkuð meira heldur en hefur verið undanfarin ár. Mér finnst t.d. áhugavert að athuga það að síðan þessi ríkisstjórn tók við hefur kjaragliðnun verið um 11– 12%. Við skulum hafa það í huga. Það væri ágætisviðbót á framfærslu fyrir lífeyrisþega ef staðið hefði verið við það loforð að fólk ætti ekki bíða eftir réttlæti, svo maður sé pínu kaldhæðinn.

Ein viðbót í þessu frumvarpi hjá okkur flutningsmönnum sem er ekki í lögunum um þingmenn og það er einmitt hérna, með leyfi forseta: „Krónutöluhækkanir í kjarasamningum opinberra starfsmanna skulu endurspeglaðar í krónutöluhækkunum fyrir greiðslur almannatrygginga …“ Ástæðan fyrir þessu er einmitt að þetta er fólk sem er á lægstu laununum og ef það er samið um krónutöluhækkanir sem er umbreytt yfir í almennar hlutfallshækkanir þegar það er verið að reikna einhverja heild o.s.frv., þá mun sú prósentutala skila miklu lægri krónutölu fyrir fólkið sem er á lægstu kjörunum. Það verður að taka tillit til krónutöluhækkana ef þær eru gerðar á annað borð fyrir fólk sem er með lægstu krónutöluna. 10% hækkun á milljón er 100.000 kr. en á 300.000 kr. bara 30.000 kr. Ef það er samið um 50.000 kr. launahækkun þá er það vissulega ákveðið hlutfall fyrir fólk sem er með hærri laun en það er lægri krónutala fyrir þau sem eru með lægri laun því þau fá ekki sömu krónutölu.

Frumvarpið er ekkert mikið flóknara en þetta þegar allt kemur til alls og það er bara réttlætið í þessu sem ég held að við verðum að þora að taka dálítið á. Ég veit ekki hver kostnaðurinn verður í heildina ef það þyrfti að bæta upp þessa 64% kjaragliðnun. Hún væri eitthvað minni fyrir ellilífeyrinn, vissulega, af því að það voru gerðar breytingar 2016 sem leiðréttu þó nokkuð mikið þar. En þetta er samt kjaragliðnun sem ég myndi telja að við berum einfaldlega ábyrgð á. Við höfum látið þetta viðgangast í fjárlögum eftir fjárlög í það langan tíma að nú munar einhverjum tugum milljarða. Hvort það eru 20–30 milljarðar þori ég ekki alveg að segja til um, mig rámar í að það hafi verið fjallað um einhverjar svoleiðis upphæðir fyrir einhverjum árum síðan í fyrirspurn hjá mér.

En við verðum að horfast í augu við það að skorturinn á skilgreiningu á lágmarksframfærslu hérna á Íslandi er eiginlega vandamálið þegar allt kemur til alls. Um það snýst þingsályktunartillaga sem ég hef lagt fram. Okkur vantar skilgreiningu á lágmarksframfærslu. Við erum með tilvísanir, bæði hjá umboðsmanni skuldara og hjá velferðarráðuneytinu, þar eru framfærslureiknivélar. Þegar maður fer í þær og reynir að komast að því hvað þær reikna þá er yfirleitt undanskilinn húsnæðiskostnaður sem er rosalega áhugavert því að húsnæðiskostnaður á Íslandi er það sem stýrir yfirleitt efnahagssveiflum hjá okkur, stýrir ráðstöfunartekjum fjölskyldna í rauninni að mjög miklu leyti. Ef við berum okkur saman við markmið hjá mörgum öðrum löndum — ég var t.d. að kynna mér aðeins húsnæðiskerfið í Vín sem er mjög áhugavert og það eru sambærileg viðmið á ýmsum öðrum stöðum. Það er líka talað um þetta í Bandaríkjunum, Obama talaði um þetta, að þumalputtareglan sé að húsnæði ætti ekki að kosta meira en fjórðung af tekjum fólks, 25%. Ef það væri tilfellið hérna á Íslandi, ef það þyrfti að ná þeim markmiðum, þá held ég að við værum í dálítið öðru ástandi. Við erum tvímælalaust langt yfir þeim markmiðum hjá mjög mörgum tekjuhópum. Ef við myndum miða við fjórðung af ráðstöfunartekjum þá myndum við ekki ná því að miklu leyti. En þar þurfum við einmitt að byrja: Hver er lágmarksframfærslan? Hver er hlutdeild húsnæðis af því? Hvernig ætla stjórnvöld að passa upp á að húsnæði — hérna ætlaði ég að segja húsnæðismarkaðinn og það er það vissulega — uppfylli þá hagkvæmni að allir þurfi að nota einungis fjórðung af ráðstöfunartekjum sínum til að hafa þak yfir höfuðið?

Þetta er, held ég, ein stærsta spurningin sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir því að grunnurinn að öllum verðbólguþrýstingi og flæði og hvernig krónan virkar og alls konar svoleiðis er í gegnum húsnæði, lífeyrissjóði, í rauninni lífeyrissjóðakerfið og og húsnæðið. Skortur á húsnæði hefur verið viðvarandi vandamál hjá okkur þegar allt kemur til alls. Án þess að vera með góðan grunn, góða skilgreiningu á því hvað er lágmarksframfærsla — en lágmarksframfærsluna er í rauninni að finna í lögum um almannatryggingar, þ.e. þar finnur maður væntanlega fólkið sem þarf að lifa af lágmarksframfærslu — og þegar þetta vantar alls staðar og efnahagskerfið er ekki að ná því að sinna fólki sem er í þeirri stöðu, þá glímum við við fátækt. Það verður einfaldlega niðurstaðan.

Það hlýtur alltaf að vera viðfangsefni okkar í þessum sal að tryggja grunninn. Við tryggjum grunninn á Íslandi með því að tryggja fólki húsnæði. Ég nefndi áðan húsnæðiskerfið í Vín og þar er merkilegt að það eru 80% allra sem búa þar sem uppfylla skilyrði þess að fá félagslegt húsnæði. 80% fólks uppfylla skilyrði fyrir félagslegt húsnæði, 60% fólks eru í félagslegu húsnæði, 60%. Þar er þekking innan borgarinnar á byggingarframkvæmdum þar sem það er í rauninni borgin sem sér að mestu leyti um það. Þar eru byggingar með rándýrum þakhúsíbúðum eða hvað þetta er kallað, íbúðir á efstu hæðum, og í sömu byggingu er meira að segja líka að finna leigufríar íbúðir, með þannig blöndun. Hvernig getur þetta kerfi virkað? Einfaldlega með því að taka ákvörðun um það og framfylgja henni. Það hefur verið gert í Vín og það hefur verið gert annars staðar. Þar virkar leigustjórnunin í rauninni, sem sagt hver hámarksupphæð leiguverðs er, út af því að húsnæði og framboð á húsnæði er tryggt. Án þess virkar það ekki. Þetta er alltaf spurning um það hvernig kerfið virkar og lög um almannatryggingar eru eitt tannhjólið í því verki. Það er tannhjólið þar sem við sjáum fólk með lágmarksframfærslu. Þessi lágmarksframfærsla þarf að duga fyrir húsnæði og við eigum í vandræðum með það á Íslandi.

Þegar við skoðum hver lágmarksframfærsla á að vera þá segir umboðsmaður skuldara: Nei, ég sleppi húsnæðinu, ég nenni ekki að reikna það með — af því að það er bara ómögulegt hérna á Íslandi, í alvörunni. Það breytist frá ári til árs. Rosaleg breyting á því núna undanfarið þegar allar vaxtahækkanirnar eru farnar að hafa þau áhrif á að húsnæðismarkaðurinn fer í frost. Ég veit ekki hvort það sé gott eða ekki, því að skorturinn er alveg sá sami, fólk hefur bara ekki efni á húsnæði lengur og þar af leiðandi er ekki verið að kaupa. Og þar af leiðandi hækkar húsnæðisverð ekki sem er gott, en vandinn er enn þá til staðar. Þegar framfærsluvandanum verður mætt með kjarasamningum þá hefur fólk efni á dýrara húsnæði og mun kaupa húsnæði sem hækkar þá í verði og verður dýrara, verðbólga o.s.frv. Vítahringurinn sem skapast vegna verðbólgunnar sem við vorum að tala um áðan, einmitt vegna þess að það er skortur á húsnæðismarkaði. Og áfram mun kjaragliðnun þeirra sem eru á lífeyri aukast af því að þar er launaþróunin að hafa áhrif, til þess að ná fram yfir verðbólguna. En það er ekki tekið tillit til launaþróunar. Það er vandamál númer eitt, tvö og þrjú fyrir þann hóp sem er með hvað lægsta framfærslu hérna á Íslandi og hefur þróast í að vera með verri og verri stöðu í rúma tvo áratugi alla vega frá því að lög um almannatryggingar voru samþykkt, það eru komin 26 ár, hver svo sem staðan var þar á undan. Hún var ekkert góð endilega þar á undan heldur en þetta er alla vega svona miðað við þessar tölur.

Ég veit hvernig þingmannafrumvörp fari í gegnum þingið, þau lenda í nefnd og svo þarf að ærslast og berjast og reyna að fá ríkisstjórnarmeirihlutann með. Enginn úr ríkisstjórnarmeirihlutanum er meðflytjandi hérna og ég býst ekki við miklum stuðningi ríkisstjórnarmeirihlutans við þetta mál. Þau að sjálfsögðu vilja bara leggja fram sitt mál. Það er mjög oft þannig, þetta verður að vera ráðherramál til þess að fara í gegn, þetta verður að vera ríkisstjórnarmál til þess að fá fjármögnun. Ég hef vissan skilning á því. En þetta er í alvörunni svo mikið grundvallarmál sem snýst um lágmarksframfærslu fólks og réttlæti fyrir fólk sem er að bíða að við verðum einfaldlega að gera eitthvað í þessu. Það er ekkert flóknara en það.