154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[16:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fordæmalaus skortur eða ekki, a.m.k. vantar 5.000 íbúðir inn á markaðinn næstu ár. Það er talað um að frumvarpið inniberi tímabundnar undanþágur frá einstökum greinum laga eins og m.a. um brunavarnir. Annars staðar í frumvarpinu er talað um að kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir eigi að leggja til grundvallar. Þannig að mig langar að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort það sé ekki algjörlega á tæru að um sé að ræða nákvæmlega sömu kröfur til þessa húsnæðis og eru gerðar almennt í byggingarreglugerð. Ég bendi raunar á að almennt hefur það þótt eðlilegt að til húsnæðis sem fólk þekkti minna og væri tímabundið væri gerð meiri krafa. Íbúðarhúsnæði sem fólk býr í mörg ár lærir fólk inn á. Þannig að það eru yfirleitt gerðar meiri kröfur til tímabundins húsnæðis og mig langar að vita: Er ekki um að ræða nákvæmlega sömu kröfur sem verða gerðar til þessa húsnæðis varðandi brunavarnir og í byggingarreglugerð um almennt íbúðarhúsnæði?