154. löggjafarþing — 15. fundur,  16. okt. 2023.

tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi.

314. mál
[17:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og ræðuna. Ég ætlaði að einhverju leyti að taka undir það sem hv. þm. Logi Einarsson var að ræða hér áðan og hélt að við værum voðalega sammála en svo erum við kannski ekkert endilega svo sammála. Ég leggst að sjálfsögðu ekki gegn þessu frumvarpi og styð það og segi eins og hv. þm. Logi Einarsson, að ég skil fullkomlega hvaðan ráðherra er að koma með því sem hér er lagt fyrir. Mig langar þó, á svipuðum nótum og ég ræddi síðast þegar þetta mál kom inn, að við séum öll mjög vakandi fyrir því hvaða áhrif það kann að hafa. Það er algjört lykilatriði í þessu máli að sveitarfélögin þurfa að vera jákvæð í garð málsins alla vega. Þau mega ekki mæla gegn því, þá verður þetta ekki að veruleika, þannig að sveitarfélögin hafa í rauninni, eigum við að segja, neitunarvald til þess að svona breytingar yrðu gerðar.

Hv. þingmaður kom inn á að það væri þessi tveggja vikna frestur, reyndar geta sveitarfélögin óskað eftir framlengingu á þeim fresti. Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra og Skipulagsstofnun og jafnframt kannski hv. umhverfis- og samgöngunefnd þegar hún fer yfir þetta, til að skoða hvort tvær vikur séu nóg. Alla vega verður það alltaf að vera tryggt að sveitarstjórn sé það fullkomlega ljóst og hafi tök á að hafa skoðun á umræddu erindi. Það verður að vera algjört skilyrði.

Svona kannski á svipuðum nótum og hv. þm. Logi Einarsson óttast ég bara hvað þetta getur þýtt til lengri tíma litið, að pressan verði sú að húsnæði sé í varanlegri notkun sem búsetuúrræði eða íbúðir af einhverju tagi. Ég get vel séð að það kunni að vera húsnæði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu eða á þéttbýlum svæðum, sem er kannski bara mjög vel til þess fallið að breyta og ef það er gert vel þá geta það bara verið fín búsetuúrræði eða íbúðir til lengri tíma litið. Og aldrei, og mér fannst nú ráðherra vera harður á því, má gefa neinn afslátt af öryggismálum. Þau eru alltaf grunnurinn. En ég hef áhyggjur af því að ef farið er á svæði sem eru ekki alveg hluti af íbúabyggð — kannski aðeins fjarri, eru athafnasvæði einhvers konar sem kunna að þykja akkúrat núna fýsileg lausn til að leysa þær áskoranir sem uppi eru — geti það orðið mjög flókið síðar meir. Við skulum bara átta okkur á því að skipulagsvaldið er svo ofboðslega víðtækt og það skiptir svo miklu máli, þetta er svo mikið stýritæki fyrir sveitarfélagið til lengri tíma litið um hvernig það þróast, hvernig það veitir þjónustu og hvar það veitir þjónustu. Þannig að svona hlutir eins og sorphirða, skólaakstur, útivistarsvæði og annað þess háttar eru auðvitað stórmál og ekki hægt að ætlast til þess að sveitarfélög séu að veita ýmiss konar þjónustu inn á öll sín svæði. Það er þess vegna sem þau afmarka í sínu aðalskipulagi þéttbýliskjarna og dreifbýli, hvar er búseta og hvar ekki. Þannig að ég vil bara ítreka það að hér sé stigið varlega til jarðar og hugað sérstaklega að því hvaða áhrif það getur haft til lengri tíma litið og bara tryggt að sveitarfélögunum sé alltaf ljóst hvað stendur til og þau hafi tækifæri til að hafa á því skoðun.

Svo langar mig kannski að beina því inn í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, þegar hún skoðar þetta mál, að þá má líka alveg velta fyrir sér, og hér er ég kannski í andstöðu við hv. þm. Loga Einarsson, hvort regluverkið sé einfaldlega of þungt og mikið hjá okkur. Ef hið opinbera þarf að leggja fram frumvarp sem þetta til að geta brugðist við þá má velta fyrir sér: Er regluverkið okkar í kringum mannvirkjamálin og skipulagsmálin bara of flókið, of íhaldssamt og tekur þetta of langan tíma? Ég hef sagt að mér finnist stundum eins og þetta kerfi sé farið að vinna fyrir kerfið sjálft. Nú er ég ekki bara að tala um íbúabyggð, ég er líka að tala um lagningu rafmagnslína og aðrar framkvæmdir sem þurfa að sæta skipulagi og þurfa að sæta framkvæmdaleyfi og öðru. Þannig að ég vil bara varpa því inn bæði til nefndarinnar og kannski til hæstv. ráðherra hvort það sé ástæða til að fara yfir löggjöfina og sjá hvort við getum lagað það til, til þess að einfalda og flýta fyrir þegar þörf er á að gera breytingar.