154. löggjafarþing — 16. fundur,  17. okt. 2023.

Störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra Bjarni Benediktsson sagði í Silfrinu í gær að ef Ísraelsher stigi yfir þær línur sem alþjóðalög marka þá myndi Ísland fordæma það.

Förum aðeins yfir stöðuna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að 2.800 manns hafi verið drepin á Gaza-svæðinu frá því að átökin hófust í síðustu viku, þar af 1.400 konur og börn. 115 árásir hafa verið gerðar á spítala og sjúkrastöðvar, segir stofnunin, sem gengur í berhögg við alþjóðleg mannúðarlög. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sent út neyðarkall vegna fyrirmæla ísraelskra yfirvalda til íbúa Gaza um að yfirgefa heimili sín innan sólarhrings. Þetta er brot á alþjóðalögum, segir Rauði krossinn. Það er líka brot á alþjóðalögum að skrúfa fyrir vatn, rafmagn, eldsneyti, mat og lífsnauðsynjar til óbreyttra borgara. Munum hér að hátt í helmingur íbúa Gaza-svæðisins eru börn og ungmenni.

Á fimmtudag gáfu sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og fulltrúar á sviði mannúðar- og mannréttindamála frá sér afgerandi fordæmingu á grimmdarverkum Hamas-samtakanna sem beindust gegn óbreyttum borgurum í Ísrael. Þetta hafa íslensk stjórnvöld líka gert með mjög afdráttarlausum hætti og með réttu. Það sem fulltrúar Sameinuðu þjóðanna gerðu líka er að þeir fordæmdu ólöglegt umsátur Ísraelshers og árásir á palestínska borgara á Gaza. Þetta er hóprefsing, sögðu þeir, og það er brot á alþjóðalögum. Alþjóðaráð Rauða krossins og sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja aðgerðir Ísraelshers gagnvart óbreyttum borgurum á Gaza vera skýr brot á alþjóðalögum, telja að báðir aðilar fyrir botni Miðjarðarhafs séu að fremja stríðsglæpi. En hvað þarf að ganga á til þess að hæstv. utanríkisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, viðurkenni þetta með afdráttarlausum hætti? (Forseti hringir.) Hvað þarf að ganga á til þess að íslensk stjórnvöld viðurkenni að hér hefur fyrir löngu verið stigið yfir þær línur sem alþjóðalög marka, að stríðsglæpur er stríðsglæpur, sama hver fremur hann?