154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

vopnalög.

349. mál
[15:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Mig langar að koma inn á afmarkaðan þátt sem er í raun ekki tekið á í frumvarpinu, að mér sýnist, en vil spyrja hæstv. ráðherra hvort slíkt sé fyrirhugað, og það er með þau mál og umsagnir sem borist hafa í samráðsgátt og snúa að skilyrðum um bogfimi á Íslandi. Það var hér lagt fram frumvarp gagnvart bogaeign vorið 2013, um að þau yrðu tekin út úr vopnalögum en eru þar enn. Þetta var að beiðni bogveiðifélagsins. Frumvarpið náði ekki að fram að ganga þá og síðan hafa í rauninni óskirnar legið fyrir um að regluverk þessarar íþróttar sem bogfimi er verði að fullu fært til samræmis við það sem gerist á Norðurlöndum. Það komu fram a.m.k. þrjár umsagnir í samráðsgátt varðandi þetta efni en það virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra. Ég vil bara spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé fyrirhugað að líta til með þessu á seinni stigum eða hvort þessum sjónarmiðum sé einfaldlega hafnað.