nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.
Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóð ferðaþjónustunnar, 62. mál, á þskj. 62 og liggur þannig fyrir á vef þingsins. Flutningsmenn tillögunnar auk mín eru þau Þórarinn Ingi Pétursson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Tillagan hljóðar svo:
„Alþingi ályktar að fela háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að undirbúa stofnun nýsköpunar-, rannsókna- og þróunarsjóðs í þágu ferðaþjónustu í samvinnu við menningar- og viðskiptaráðherra. Ráðherra leggi frumvarp til laga um stofnun sjóðsins fyrir Alþingi fyrir árslok 2023.“
Það gæti farið að verða aðeins stuttur tími núna en þessi tímamörk eru eitthvað sem hægt er að endurskoða í meðförum þingsins. Með tillögunni fylgir greinargerð og ég ætla að stikla á nokkrum atriðum í henni og setja líka málið aðeins í samhengi við vinnu sem fer fram nú á vegum ráðherra málaflokksins.
Í greinargerðinni kemur fram að markmið tillögunnar er að koma á fót sjóði til eflingar ferðaþjónustu, sjóði sem væri hægt að nota til nýsköpunar, rannsókna og þróunar, og tryggja fjármagn til rannsókna, og hagnýtingar rannsókna, með nýsköpun og þróun. Eins og við vitum öll þá hefur ferðaþjónustan vaxið alveg ótrúlega hratt, sérstaklega síðasta áratuginn, og sem atvinnugrein hefur ferðaþjónustan skapað ný tækifæri, ný fyrirtæki og þúsundir starfa. En ítrekað er kallað eftir betri upplýsingum og gögnum um atvinnugreinina og sérstaklega eru mikil tækifæri til að draga saman þær upplýsingar sem þó eru til, nýta þær betur, vinna úr þeim og sjá hvar tækifærin liggja. Það þarf líka að skipuleggja söfnun á tölfræðiupplýsingum um greinina betur og sérstaklega er brýnt að auka úrvinnsluna eins og áður sagði. Við vitum að ferðaþjónustan byggir á nýtingu náttúrunnar og menningar í landinu en hefur líka, um leið og er verið að nýta þessar auðlindir, víðtæk samfélagsleg áhrif á efnahag og félagsgerð, menningu og umhverfi. Það er mjög mikilvægt að í þróun og uppbyggingu greinarinnar sé alltaf lögð til grundvallar sjálfbærni, þrjár stoðir sjálfbærni, sem sagt sú félagslega, umhverfislega og efnahagslega. Til þess að það takist þarf að afla frekari þekkingar um greinina. Þess vegna er nauðsynlegt að áframhaldandi þróun byggi á áreiðanlegum gögnum, rannsóknum og þekkingu. Við vitum það sem þjóð sem hefur í gegnum tíðina byggt allt sitt á auðlindanýtingu að nýting auðlinda krefst rannsókna og þekkingar.
Mig langar svo að víkja að því að þann 2. nóvember voru birt í samráðsgátt fyrstu drög að aðgerðaáætlun í ferðamálastefnu til 2030. Það er frá ráðuneytinu sem fer með ferðamál. Í þeim drögum fjallar einn kaflinn af sjö sérstaklega um rannsóknir og nýsköpun og undir þeim kafla eru tilteknar tíu aðgerðir og raunar tengjast nokkrar af aðgerðunum í hinum köflunum líka gagnaöflun, öflugum rannsóknum og nýsköpun. Þessi drög undirstrika kannski þörfina fyrir sjóð eins og lagt er til að stofna með þessari þingsályktunartillögu, sjóð til rannsókna, nýsköpunar og þróunar.
Mig langar að koma sérstaklega inn á þrjár aðgerðir sem eru til umsagnar í þessari tillögu að aðgerðaáætlun í ferðamálastefnu. Aðgerð C.2 gengur beinlínis út á að tryggja aukið fjármagn til rannsókna á sviði ferðaþjónustu. Lagt er upp með að miða skuli við að um 1% af virðisauka í greininni fari til gagnaöflunar og rannsókna. Þetta er einmitt eitt af því sem er mikilvægt að átta sig á, hversu miklu viljum við verja til þessarar gagnaöflunar en undirstrikar um leið mikilvægi þess að til þess kannski að auka innkomuna og virðisaukann af greininni er mikilvægt að halda áfram að afla gagna og rannsaka. Þarna kemur líka fram að miklu minna fé og lægra hlutfalli, hvort sem við mælum í krónutölu eða skoðum framlag til vergrar framleiðslu, er varið til gagnaöflunar og rannsókna í ferðaþjónustu en í öðrum grunnatvinnuvegum landsmanna. Þess vegna vantar upp á þekkinguna og skilninginn á umfangi og afleiðingum og áhrifum ferðaþjónustunnar.
Síðan langar mig að stoppa við aðgerð C.2.3, þar sem er í rauninni verið að fjalla um að það ætti að setja á laggirnar sérstaka markáætlun á sviði ferðamála sem er í rauninni alveg í takt við umfjöllun um verkefnið í greinargerðinni með tillögunni þar sem er verið að leggja til að Rannís yrði falin umsjón með þessum sjóði. Í aðgerðaáætluninni sem er í samráðsgátt er orðalagið einhvern veginn á þann veg að sett yrði á laggirnar sérstök markáætlun á vegum Rannís um rannsóknir á sviði ferðamála þar sem markmiðið væri að tryggja jákvæð hagræn og samfélagsleg áhrif ferðamennsku í sátt við náttúruna.
Svo langaði mig að nefna hérna aðeins að lokum C.3, um hvata til nýsköpunar í ferðaþjónustu. Þar er verið að hvetja til samstarfs um nýsköpun og leggja sérstaklega áherslu á hvata til lítilla og meðalstórra fyrirtækja til samstarfs við stofnanir sem sinna rannsóknum sem gagnast við nýsköpun innan greinarinnar og í afleiddum greinum. Þar væri m.a. sérstök áhersla á að vekja fyrirtæki í ferðaþjónustu til meðvitundar um möguleika á að sækja skattafslátt vegna rannsókna og þróunarkostnaðar og hvetja rannsóknastofnanir á sama hátt til að sækja peninga í gegnum slíkt samstarf.
En áður en ég færi mig aftur að tillögunni og greinargerðinni með henni þá vil ég hvetja þá sem áhuga hafa á ferðamálunum til að skila inn umsögn um þessi fyrstu drög. Þau eru unnin af starfshópi sem ferðamálaráðherra skipaði síðasta vor og svo er gert ráð fyrir að í framhaldi af því að umsagnir berist núna þá verði jafnframt haldnir opnir umræðu- og kynningarfundir um þessa vinnu í öllum landshlutum og síðan verði unnin tillaga til ráðherra sem við vonandi fáum til umfjöllunar í vetur líka. Eins og ég lít á þá styður þessi tillaga sem ég er hér að mæla fyrir við þessa vinnu og öfugt.
Mig langaði líka að vekja athygli á svari sem tengist þessari tillögu, svari við fyrirspurn sem ég lagði til fram til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í haust og fékk einmitt svar við í gær. Það varðar úthlutanir úr Tækniþróunarsjóði. Þar er annars vegar svarað spurningu um skiptingu úthlutana úr Tækniþróunarsjóði eftir atvinnugreinum. Þar kemur fram að ferðaþjónustan hefur fengið 37 úthlutanir af 1.217 yfir þetta tímabil, sem segir okkur auðvitað að það er mjög mikilvægt að bæta úr á þessum vettvangi, bæði leggja áherslu á rannsóknir og upplýsingaöflun og úrvinnslu en líka að hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til að sækja styrki eftir ýmsum leiðum. Markáætlun er góð en auðvitað þurfum við líka að nota aðra möguleika sem nú þegar eru til staðar. Svo er auðvitað fleira í þessu svari sem vekur athygli. Átta úthlutanir hafa farið til Austurlands af 1.217 yfir þetta tíu ára tímabil.
Ef ég færi mig þá að lokaumræðunni um tillöguna sjálfa þá er áhugavert að koma aðeins inn á það að auðvitað er verið að safna upplýsingum víða núna en það er mjög mikilvægt að það verði meiri heildarsýn þar. Mig langar að nefna nokkra af þessum stöðum þar sem upplýsingarnar eru dregnar saman. Ferðamálastofa annast t.d. talningar á ferðamönnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og framkvæmir kannanir á ferðavenjum, gefur út bækling með ferðaþjónustunni í tölum þar sem hagstærðir eru teknar saman. Þetta er hægt að nálgast á vef Ferðamálastofu. Hagstofan gefur út ferðaþjónustureikninga en það kemur líka fram í gögnum að það þarf að tryggja meiri mannafla til að ná betur utan um þá útreikninga. Samtök ferðaþjónustunnar rekur svo mælaborð undir heitinu Ferðagögn á ferdagogn.saf.is. Þar er að finna ýmis gögn um umsvif ferðaþjónustunnar og hægt að leita í nærsamfélaginu, ég held að þetta sé mjög gagnlegt fyrir þá sem eru einmitt að þróa sína starfsemi um land allt. Svo er vefsíðan Mælaborð ferðaþjónustunnar þar sem ýmsar upplýsingar eru birtar með myndrænum hætti og hægt er að skoða líka eftir árum og landsvæðum. Rannsóknarmiðstöð ferðamála er svo starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum á Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu og hefur beinlínis það markmið að efla rannsóknir á sviði ferðamála en það hefur í rauninni skapað vanda að erfitt hefur verið að sækja fjármagn í þessar rannsóknir. Þó að samstarfið sé til staðar hefur fjármagn til rannsókna ekki verið til staðar og það er m.a. sá skortur sem er verið að bregðast við með þessari tillögu. Með því að hugsa þetta út frá t.d. virðisaukanum af greininni þá væri hægt að efla þessar rannsóknir í takt við eflingu greinarinnar.
Þá held ég að ég láti þessari umfjöllun lokið og legg áherslu á að það er mikilvægt að við stöndum okkur betur á þessu sviði. Ég vil að lokum leggja til að málinu verði vísað til atvinnuveganefndar og hvetja nefndina til þess að fara yfir þetta mál í samhengi við aðra umræðu um ferðaþjónustuna í vetur.