154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.

62. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni kærlega fyrir andsvarið. Það er mikilvægt að fá innsýn þess sem hefur unnið á þessu sviði í verkefnið og einmitt áhugavert að okkur hefur ekki kannski farið nægilega fram í að afla upplýsinga á þessum 20 árum sem eru liðin frá því hv. þingmaður vann sitt verkefni. Jú, varðandi spurningu þingmannsins, þá gengur þessi tillaga einmitt út á það að við finnum út hvernig við ætlum að ákvarða fjármagn til verkefnisins. Búa til sjóð í þágu ferðaþjónustu, búa til ramma utan um hann, fela Rannís umsýsluna og svo geta verið markáætlanir á mismunandi sviðum eftir því hvar liggur mest á hverju sinni. Vissulega þarf líka að fókusera á á heildarsýnina í gagnaöfluninni og skráningu upplýsinga en það er ekki verið að hreyfa við neinu því sem er fyrir, það er meira verið að leggja áherslu á það að fylla upp í myndina þannig að það séu ekki göt í upplýsingaöfluninni, að við náum okkur í heildstæða mynd og tryggjum fjármagn til að vinna úr þeim upplýsingum sem liggja í þessum tölum sem þó hefur verið safnað síðustu ár og bætum gagnaöflunina til framtíðar.