154. löggjafarþing — 24. fundur,  7. nóv. 2023.

nýsköpunar-, rannsókna og þróunarsjóður ferðaþjónustunnar.

62. mál
[17:18]
Horfa

Flm. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni seinna andsvar. Ég ætla nú að byrja á því sem ég gleymdi í fyrra svarinu, sem sagt varðandi spurninguna sem ég lagði fram, um hvernig úthlutanir skiptast úr sjóðnum eftir landshlutum árlega síðastliðin tíu ár. Í svarinu kemur fram að átta úthlutanir af 1.217 hafa farið til Austurlands, átta til Vesturlands, reyndar 15 til Vestfjarða. Ég held að við vitum hverjir hafa staðið sig vel í nýsköpun þar og hverju það hefur skilað samfélaginu. Það segir okkur auðvitað að fjármagn til nýsköpunar og þróunar þarf líka að fara um allt land allt árið eins og ferðaþjónustan.

Varðandi greiningar á áhrifum ferðaþjónustunnar þá er einmitt svo mikilvægt, eins og hv. þingmaður kemur inn á, að skoða landshlutana, skoða t.d. áhrifin á framleiðslu á matvælum hér á landi, hvernig við getum styrkt matvælaframleiðslu eða hvernig matvælaframleiðslan getur styrkt sig með því að skoða betur hvernig hægt er að þjónusta ferðamennina. Þá er ég bæði að tala um sjávarútveginn og landbúnaðinn og ég held að þar séu ótal tækifæri. Það tengist líka auðvitað ferðaþjónustunni um land allt. Það er áhugavert að borða grænmeti framleitt í gróðurhúsum á Íslandi og eins fisk sem er veiddur af smábátum sem koma að landi þar sem þú varst að skoða lundann rétt áðan o.s.frv.