tóbaksvarnir.
Forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið og biðst velvirðingar á því að hafa misskilið fyrra andsvar. Mér er það ljóst eftir seinna andsvarið að ég held að við verðum seint sammála um nálgunina í forvörnum. Ég tel forvarnir vera mjög margþætt verkefni. Þær snúast um fræðslu en þær snúast líka um aðgengi og það að hafa áhrif á hvaða efnum er í rauninni beitt, í þessu tilfelli, eða hvernig efnum er spilað saman til að örva neyslu á tiltekinni vöru. Það sem hefur verið nærtækt núna er þessi sprenging sem hefur orðið í neyslu á nikótínpúðum og ég tel mjög mikilvægt, svo það sé sagt, að löggjafinn taki á því þar sem ég tel það vera mikla ógn. Mjög sterkir nikótínpúðar liggja eins og hráviði út um víðan völl, getum við sagt, og eru bæði ógn við óvita, hvort sem þeir eru börn eða dýr sem fara um en svo auðvitað er neysla nikótínpúða hættuleg þeim sem þeirra neyta og gera sér oft og tíðum ekki grein fyrir styrkleika nikótínsins í sterkustu púðunum sem eru á markaði. Þar held ég t.d. að verði að setja takmarkanir.