tóbaksvarnir.
Forseti. Það er alveg áhugavert þegar við höfum áhyggjur af öðru fólki og líðan þess og sérstaklega áhyggjur af því sem það ber sjálft ábyrgð á gagnvart sjálfu sér. Það er sérstaklega áhugavert þegar við förum að reyna að hafa áhrif á það hvernig fólk á að haga sínum eigin hugsunum og gjörðum og athöfnum, verð ég að segja. Ég skil alveg að það séu sett svona viðmið, eins og t.d. með tóbakið, að það sé ekki í sjónlínu og þess háttar. Öðruvísi aðgengi dregur ekkert úr frelsi fólks til að kaupa vöruna. En þetta er einhvern veginn af öðrum toga.
Mér finnst áhugavert að reyna að pæla í einmitt svona samanburði eins og ég fór í í andsvarinu áðan, að óhollar vörur verði að vera vondar á bragðið, megi ekki vera góðar á bragðið eða eitthvað því um líkt, því að það er fullt af óhollum vörum sem eru ekkert endilega vímuefni. Það átti nú að vera sykurskattur hérna einhvern tíma fyrir langalöngu. Eigum við að setja einhvers konar takmarkanir á aðra matvöru sem er óholl? Kannski nærtækast, eins og ég nefndi áðan, er þá áfengi eða kaffi, þetta eru vímugjafar líka, og súkkulaði, merkilegt nokk.
Ég hlakka, verð ég að segja, til atkvæðagreiðslunnar um þetta mál. Ég man eftir því þegar við greiddum atkvæði hérna um reykingarnar og veipið á veitingastöðum. Það fór fram og til baka á milli flokka hvernig skoðanir voru á því og endaði í rauninni með því — og breytingartillögum og þess háttar — að niðurstaðan var ekki samkvæmt stjórn og stjórnarandstöðu. Það var mjög áhugavert og verður áhugavert að sjá hvort atkvæðagreiðslurnar skiptist einhvern veginn upp innan flokka og milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli. Ég held að þetta sé annars eðlis heldur en t.d. að takmarka aðgengi með tilliti til aldurs eða hvort efni séu á bak við eða inni í skáp eða frammi á gangi eða eitthvað því um líkt.
Ég er ekki mikill stuðningsmaður reykinga og hvað þá óbeinna reykinga eins og það var, hryllilegur viðbjóður að mínu mati, en ég get að sama skapi alveg sagt að fólk má alveg vera ógáfað sín vegna svo lengi sem það hefur ekki skaðleg áhrif á aðra, sem óbeinar reykingar vissulega gerðu en veip t.d. síður og hvað þá nikótínpúðar, nema einmitt þegar þeir eru orðnir einhvers konar tyggjórusl, eins og var lýst hérna áðan, en það er ágætisviðmið um það hvernig má ekki rusla til á almannafæri. Það eiga að vera geymslur fyrir þessa afgangspúða í dollunum þannig að það er mjög merkilegt eiginlega að þær skuli ekki virka og þetta verði þá einhvers konar rusl út um allt í staðinn. Mér finnst það áhugavert en einhvern veginn ekki þess vert að banna bragð. Ég kemst eiginlega eiginlega ekki yfir hvað þetta er áhugavert. Alla vega, ég myndi ekki taka þessu mjög vel. Nei, ég ætla alveg örugglega að segja nei við þessu.