154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla í þessari ræðu minni að fjalla áfram um flughluta frumvarpsins. Það er mikið rætt um áhrifin og árangurinn sem náðist með þessu samkomulagi sem var gert í aðdraganda Evrópuhátíðarinnar milli hæstv. forsætisráðherra og Ursulu von der Leyen um þessa tímabundnu aðlögun sem á sér að meginhluta stað hvað varðar losunarheimildirnar árin 2025 og 2026. En það sem mig hefur þótt vanta í umræðuna — nú er skaði af því að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson sé ekki hérna því að hann gæti nú að líkindum aðstoðað þingheim við að glöggva sig á þeim mun sem er á hagsmunum Íslands annars vegar og þeirra eyja sem m.a. hafa verið nefndar í umræðunni, Kanaríeyjar, Malta, Kýpur o.fl. Lykilatriði hvað flugið varðar í þessu samhengi er tengiflugshlutverk Keflavíkurflugvallar. Tengiflug yfir Atlantshafið er það sem gerir þetta mál svo allt öðruvísi og hættulegra til framtíðar heldur en það sem blasir við þessum eyjum — ég veit ekki hvað þetta er kallað á flugmáli — þar sem er fyrst og fremst verið að fljúga fram og til baka frá meginlandinu. Þetta gegnumstreymi hér, þetta „hub“, þetta tengikerfi og þessi tengiflugvöllur sem Keflavíkurflugvöllur er er atriði sem mun hafa verulega neikvæð áhrif þegar kerfið tekur við eins og það er 1. janúar 2027. Það er ekkert, eins og er, í gögnunum sem fyrir liggja sem vekur mér neina von um að skilningur sé á því eða vilji til að taka sérstakt tillit til þess þegar fram í sækir, því að þau flugfélög sem fljúga beint yfir Atlantshafið án viðkomu á Íslandi eiga býsna öfluga fulltrúa í Brussel. Það þarf enginn að láta sér detta í hug að þar verði ekki talað gegn þeim sjónarmiðum sem mestu máli skipta fyrir okkur til að verja þessa tengimiðstöð sem Keflavíkurflugvöllur er hér í miðju Atlantshafinu og er grundvöllur þess að við getum notið jafn góðra tenginga til Ameríku, Evrópu og víðar. Tengiflugvöllurinn er algjört kjarnaatriði í því að íslenskir flugrekendur geti verið í námunda við það að bjóða Íslendingum þá þjónustu, fjölbreytileika, tíðni ferða og verð, hér eftir sem hingað til, sem verður útilokað verði kerfið innleitt eins og það er 1. janúar 2027.

Í því samhengi verð ég að nefna að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson nefndi það í andsvari hér áðan að hann hefði viljað sjá þetta gerast með öðrum hætti, að CORSIA-kerfið hefði verið niðurstaðan. Það bara varð ekki niðurstaðan. Verri leið var farin fyrir hagsmuni Íslands sem við síðan kokgleypum eins og hún stendur innan mjög skamms tíma. Í samhengi hlutanna er 1. janúar 2027 rétt handan við hornið. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd tvöfaldan þann tíma sem er fram að þeim tímapunkti, bara til að setja í samhengi hvað sá tími verður fljótur að líða þegar á reynir. Ég held því að við verðum og ættum að gefa okkur tíma til að glöggva okkur enn betur á þeim áhrifum sem þetta regluverk hefur á Keflavíkurflugvöll sem tengiflugvöll í miðju Atlantshafinu. Ég held að við verðum strax að byrja að undirbyggja það að stíga út úr þessu kerfi þegar við okkur blasir kaldur raunveruleikinn, að við fáum ekki frekari undanþágur. Þá bendi ég aftur á það sem ég benti á er varðar nefndarálit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Ég minni á það að nefndarmenn sjálfir ráða hvað stendur í álitinu en samt stendur þar eitthvað sem ætti að hræða okkur öll frá því að undirgangast þetta með þeim hætti sem nú liggur fyrir. ESB segir nei, ESB hafnar, ESB telur ekki ástæðu til; þetta eru svörin sem íslenskir hagsmunagæslumenn munu fá árið 2026. (Forseti hringir.) Því miður getur fátt annað gerst. Sú staða blasir við.

Virðulegur forseti. Það eru nokkur atriði til sem ég tel nauðsynlegt að koma inn á og vil því biðja um að vera settur aftur á mælendaskrá.