154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:22]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Nú hyggst ég um sinn snúa mér að áformuðum sköttum eða gjöldum á siglingar, flutninga með skipum. Ég tel þó rétt að undirstrika það sem ég sagði hér í lok ræðu minnar áðan vegna þess að ég var þá nýbúinn að lesa upp tyrfinn texta og náði ekki alveg að útskýra nógu vel hvað í honum fólst og því ætla ég að gera það núna. Megininntakið í þessu þriðja atriði, þ.e. með tímafrestinn og græna eldsneytið, sem var atriði sem við hefðum hvort eð er átt rétt á, varðar vonina, vonina um að eitthvað gerist fyrir lok árs 2026. En eins og þetta er orðað hérna og ég las upp áðan og í ljósi þess að þetta mat á að fara fram á því tímabili þegar Ísland er ekki komið inn í kerfið og er ekki byrjað að greiða gjöldin sem menn, og ég, hafa svona miklar áhyggjur af, þ.e. að matið verði framkvæmt á þeim tíma, myndi það einfaldlega kalla á að Evrópusambandið myndi skipta um skoðun. Eftir alla 200 fundina þegar Ísland væri búið að fallast á þetta þá myndi Evrópusambandið allt í einu ákveða að skipta um skoðun, sem er augljóst að það mun ekki gera. Hér er sagt: Ja, við skoðum hvort það sé hætta á kolefnisleka, umhverfis- og loftslagsáhrifum og svona þannig að ef Evrópusambandið ákvæði fyrir lok árs 2026 að gera þarna grundvallarbreytingu á þá væri það í raun að segja að það hefði haft rangt fyrir sér. Það hefði ekki lagt rétt mat á þetta og kannski vissu Íslendingarnir bara hvað þeir voru að segja, við klikkuðum bara á þessu og verðum að draga til baka það sem við erum búin að leggja á þá.

Trúir því einhver að slíkt myndi gerast? Trúir Logi Einarsson því, hv. þingflokksformaður Samfylkingarinnar, að Evrópusambandið myndi af sjálfsdáðum taka upp á því að hugsa: Heyrðu, við erum búnir að ná Íslendingunum inn í þetta … (LE: Er þingmaðurinn að mana mig í andsvar?) Já. — Og þeir höfðu kannski bara rétt fyrir sér. Við skulum sleppa þeim aftur. Ég sé það ekki fyrir mér og ég held að enginn skynsamur maður geri það reyndar.

En ég læt þetta nægja af flugmálinu að sinni því að mér er líka mikið niðri fyrir varðandi þessi nýju gjöld á siglingar og ekki hvað síst vegna viðbragðanna sem hæstv. ráðherrar sýndu þegar það mál kom upp. Þetta mál kom upp talsvert eftir umræðuna hér um fluggjöldin, sem ráðherrarnir höfðu miklar áhyggjur af, og gott ef það kom ekki upp um það leyti, bara rétt eftir að búið var að gefa eftir í flugmálinu í ráðherrabústaðnum. Ég held að þetta hafi komið í beinu framhaldi, jafnvel bara fáeinum dögum síðar. Þá er tilkynnt um að það sama muni nú gilda um siglingar skipa og fela í sér verulegar hækkanir á kostnaði við að flytja vörur til og frá landinu. Sérstaða landsins hvað þetta varðar er auðvitað augljós. Hún var augljós varðandi flugið líka, en hvað þá varðandi mikilvægi þess fyrir okkur að geta flutt vörur til landsins og frá landinu, landi sem er eyja úti í Atlantshafi og reiðir sig auk þess mjög á milliríkjaviðskipti. Þannig að sérstaða Íslands var augljós gagnvart til að mynda löndum í Mið-Evrópu þar sem eru títtræddar járnbrautarlestir og þétt og stórt vegakerfi, fljótasiglingar, kanalar o.s.frv., fjölmargar flutningaleiðir innan og á milli landa til að viðhalda alþjóðaviðskiptum og -flutningum. En hver voru viðbrögð ráðherra? Nýbúnir að lúffa í flugmálunum þá ákváðu þeir bara að gefast upp fyrir fram (Forseti hringir.) í skipamálinu.

Eins og hæstv. forseti heyrir (Forseti hringir.) eflaust á mér er ég rétt að hefja frásögn mína og bið því um að verða settur aftur á mælendaskrá.