154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:28]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla hér að verja nokkrum orðum í að rifja upp hvert mat stjórnvalda og hvert mat ráðherra var á stöðunni hér í byrjun árs og setja það síðan í samhengi við þann mjög svo tímabundna árangur sem náðist og útskýra fyrir þeim sem á heyra að ég og Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, erum sammála að ég held í fyrsta skipti um ævina, og ég fékk heimild til að vitna til orða hans á fundi umhverfis- og samgöngunefndar. Það kemur á eftir, en loftslagsgjöld á flug voru rædd hér í þinginu 23. febrúar síðastliðinn þegar ég átti samtal við hæstv. innviðaráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, í fyrirspurnatíma þar sem ég spurði ráðherrann, með leyfi forseta — þá er verið að ræða samtalið við ESB á þeim tíma, hvernig hagsmunagæslunni væri háttað og hvaða árangur væri að nást:

„Hvernig var þessum málaumleitunum ráðherrans gagnvart starfsbræðrum og -systrum sínum í Evrópu tekið í ljósi þess að þegar fréttatilkynningin berst hálfu ári seinna, þann 9. desember, virðist í engu hafi verið tekið tillit til sjónarmiða Íslands?“

Þarna var ég að vísa í frétt sem hafði birst um þessi mál. Hæstv. innviðaráðherra svaraði því til heiðarlega, og ég ætla að fá að vitna til þess, með leyfi forseta:

„Þetta er vissulega búið að vera til umfjöllunar í stjórnkerfinu býsna lengi og þar hjálpar til að við erum búin að koma því þannig fyrir að við erum með starfsmenn úti í Brussel sem fylgjast með, þannig að um leið og þessar hugmyndir fóru af stað þá vakti starfsmaður okkar athygli á því að það myndi hafa talsverð áhrif á flug til og frá Íslandi ef þetta gengi hvað verst fram. Við vorum í raun og veru í upphafi ferilsins að reyna að hafa áhrif og höfum verið að því síðan með fjölmörgum fundum …“

Áfram heldur hæstv. ráðherra:

„Ég hef átt fjölmarga fundi með m.a. starfsbræðrum mínum á Norðurlöndum sem og öðrum í Evrópusambandinu.“ — Hér kemur lykilsetningin: „Umhverfisdeild Evrópusambandsins hefur hins vegar ekki gefið sig með aðferðafræðina.“

Þetta er sama umhverfisdeild og mun mæta samningamönnum Íslands árið 2026 og segja: Heyriði, vinir. Þið eruð búnir að undirgangast kerfið, þið fenguð þessa undanþágu og nú tekur kerfið bara við eins og það er, rétt eins og þið gerðuð strax gagnvart siglingunum. Umhverfisdeild Evrópusambandsins hefur hins vegar ekki gefið sig með aðferðafræðina.

Áfram hélt hæstv. innviðaráðherra og svarar því til, með leyfi forseta — þarna var ég að reyna að útskýra að ég vildi draga fram hver árangurinn hefði hingað til verið með þessum umleitunum gagnvart starfsbræðrum og -systrum ráðherrans:

„En varðandi þennan þátt sem er hér til umfjöllunar þá tókst okkur ekki að snúa umhverfishluta Evrópusambandsins …“

Þetta var þrátt fyrir mestu aðgerð, eins og því hefur verið lýst af hæstv. utanríkisráðherra þess tíma, sem íslensk stjórnvöld hafa nokkurn tíma ráðist í hvað varðar lobbýisma á erlendri grundu.

Áfram heldur hæstv. innviðaráðherra:

„Því er ég fullviss um að við munum ná einhverjum árangri í þessu. Við munum nota öll þau ráð sem þarf til að koma í veg fyrir að þetta gangi að óbreyttu yfir Ísland eins og það lítur út.“

En hver var niðurstaðan? Þetta gengur óbreytt yfir Ísland eins og það lítur út 1. janúar 2027. Í samhengi hlutanna er það bara eftir korter.

Virðulegur forseti. Til að halda áfram að setja í samhengi og rifja upp með hvaða augum hæstv. ráðherrar litu málið, vandamálið sem fyrir lá á þessum tíma, langar mig að rifja upp umræðu um innleiðingu loftslagslöggjafar ESB sem átti sér stað 27. febrúar 2023. Þar átti hv. þingmaður, formaður Miðflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, orðaskipti við hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur.

Frú forseti. Upp á samhengi hlutanna þá held ég að sé rétt að ég fari yfir þessi samskipti í næstu ræðu minni svo að þau slitni ekki tvennt. Ég bið þig vinsamlegast um að setja mig aftur á mælendaskrá.