154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni ætla ég að rifja upp orðaskipti formanns Miðflokksins, hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, og hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur sem áttu sér stað 27. febrúar 2023. Þar er rætt um innleiðingu loftslagslöggjafar ESB og formaður Miðflokksins spyr forsætisráðherra, með leyfi forseta, „… hvort hann geti lýst því afdráttarlaust yfir hér að íslensk stjórnvöld muni ekki innleiða þetta regluverk nema tryggt verði að það fáist undanþága fyrir Ísland að því marki að samkeppnisstaða okkar skerðist ekki á nokkurn hátt“.

Hæstv. forsætisráðherra svarar því til, með leyfi forseta, að „… markmiðið með þessari innleiðingu eða löggjöf er að hvetja fólk til að velja aðra valkosti þegar farnar eru skemmri leiðir“.

Síðan heldur hæstv. ráðherra áfram og segir:

„Því er hér augljóslega töluverður munur á“ — eftir að hafa útskýrt muninn vegna fjarlægðar og lengdar flugleggja — „og munurinn er líka sá að við, íslensk stjórnvöld, segjum ekki við þau sem hér búa að þau geti tekið lest eða rútu til að ferðast á milli landa því sá möguleiki er ekki fyrir hendi.“

Það er í sjálfu sér ágætt að það liggi fyrir að skilningur sé á því hjá stjórnvöldum. Það var auðvitað ástæðan fyrir því að farið var í þessa risaaðgerð til að tala fyrir hagsmunum Íslands í þessum efnum.

Áfram heldur síðan forsætisráðherra, með leyfi:

„Eins og þessi reglugerð er hugsuð þá mun Ísland borga hlutfallslega mun meira en önnur ríki, og það er óásættanlegt. Hv. þingmaður spyr hvort ég geti svarað skýrt. Ég get svarað því algjörlega skýrt að í ljósi þess að við erum ekki komin með umhverfisvænni lausnir í flugi er algerlega óásættanlegt að Ísland borgi svo hlutfallslega miklu meira en önnur ríki inn í þetta, einfaldlega vegna landfræðilegrar legu.“

Hver er svo staðan? Eins og hæstv. forsætisráðherra segir svo réttilega í þessum samskiptum í febrúar síðastliðnum þá eru ekki komnar umhverfisvænar lausnir í flugi sem mæta þeim kröfum sem fram eru settar. Þetta er því, eins og svo margt annað, bara enn einn almenni skatturinn klæddur í grænan búning loftslagsmála, af því að eins og kemur fram í umsögn Icelandair þá geta þau ekki mætt ákveðnum þáttum þessa regluverks. Lausnirnar eru ekki til og umhverfisvæna eldsneytið er ekki til. Þetta er því eitthvert fáránleikhús sem mætir okkur hér og orð ráðherranna á þessum tímapunkti eru auðvitað þeirrar gerðar að maður veltir fyrir sér: Var öllu fórnandi til að það væri góð stemning á Evrópuhátíðinni í Hörpu? Ég rifja hér upp aftur, með leyfi forseta, orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra þegar hún segir:

„Ég get svarað því algjörlega skýrt að í ljósi þess að við erum ekki komin með umhverfisvænni lausnir í flugi er algerlega óásættanlegt að Ísland borgi svo hlutfallslega miklu meira en önnur ríki inn í þetta, einfaldlega vegna landfræðilegrar legu.“

Það fékkst ákveðinn frestur árin 2025 og 2026 en svo mætir þetta okkur af fullum þunga 1. janúar 2027, sem hæstv. forsætisráðherra lýsti að væri fullkomlega óásættanlegt í ræðu hér í þinginu í febrúar síðastliðnum.

Áfram áttu þau orðastað og segir forsætisráðherra m.a., með leyfi forseta:

„Við höfum bent á að það er ekkert útilokað að önnur ríki hreinlega tækju yfir þetta hlutverk Íslands, að vera tengimiðstöð, sem ekki væru aðilar að þessu meðan ekki eru til lausnirnar sem tryggja að flugvélar geti flogið á grænni orku.“

Þetta segir manni að forsætisráðherra og stjórnvöld skilja vandamálið, þennan ómöguleika sem lausnirnar og kerfið standa frammi fyrir og sérstaklega þann ómöguleika sem hagsmunir Íslands standa frammi fyrir 1. janúar 2027. Hún er ótrúleg, þessi skammsýni sem skín í gegnum fagnaðarlætin vegna þessara skammtímalausna, sem hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson kallaði hér áðan eftir í samhengi við víðsýni, jafn undarlegt og það hugtak var í þessu samhengi.

Í ljósi þess að taka tillit til yfirvofandi þingloka ætla ég að láta þetta duga hvað varðar upprifjun á samskiptum um þetta mál innan þess árs sem nú er að líða og ýmsum skynsamlegum orðum sem féllu frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem virðast síðan hafa gleymst. (Forseti hringir.) Í öllu falli hefur skapast sú staða að hætt er að hafa áhyggjur af þessu í nokkur misseri. Það er ekki gott.