154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[14:49]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég ætla, til að reyna að stytta mál mitt eins og mögulegt er, að fara mjög hratt yfir þá mynd sem teiknaðist upp í fréttaflutningi af þessu máli. Eins og hefur komið fram hér í ræðum fyrr í dag kom þetta fram í byrjun árs eða eins og hæstv. utanríkisráðherra þess tíma, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sagði og fram kom í fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Stærsta hagsmunamál Íslands frá upptöku EES.“ Áfram er sagt frá því í Morgunblaðinu í byrjun árs: „Róa öllum árum að því að Ísland losni.“ Og: „Von der Leyen svaraði erindi Katrínar en svörin fást ekki afhent.“ Svo flutu þau nú upp en það var ekki að áeggjan stjórnvalda. „Gætu orðið hamfarir fyrir ferðaþjónustuna“, segir hér í viðtali við forstjóra Play, Birgi Jónsson. „Tengiflug gæti færst annað“, segir í viðtali við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair. „Samkeppnisstaða skekkist með íþyngjandi reglugerðum“, í frétt frá Samtökum iðnaðarins.

Þetta er það sem sneri að fluginu sem ég vildi nefna. Síðan varðandi siglingarnar er hér viðtal við Sigurð Inga Jóhannsson: „Ólíklegt að íslensk stjórnvöld sæki undanþágur vegna mengunarskatts á skipaflotann.“ Hér er viðtal við Katrínu Jakobsdóttur og þarna er komið annað hljóð í strokkinn: „Allar greinar verða að leggja sitt af mörkum gegn mengun.“ Viðtal við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í Ríkisútvarpinu: „Áhrifin allt önnur og miklu minni en í fluginu.“ Þarna er verið að fjalla um siglingarnar og þá furðulegu ákvörðun stjórnvalda að sækja ekki þær undanþágur sem beinlínis eru skrifaðar inn í regluverkið.

Ástæða þess að ég nefni þetta hérna er að í þessum viðtölum teiknast upp sú mynd sem við okkur blasir að afloknum aðlögunartímanum. Það teiknast upp sú mynd að staðan fyrir íslenska hagsmuni, íslenska ferðaþjónustu, íslenskan flugiðnað, íslenska útflytjendur á vörum og þeim sem flytja vörur til landsins, fyrir heimili landsmanna sem vilja komast í sólina eða eitthvert annað, staða íslensks samfélags í heild getur skaðast stórkostlega verði þetta kerfi innleitt eins og það er 1. janúar 2027. Það var enginn undansláttur hjá fulltrúum flugfélaganna að svara því með þeim hætti þegar þeir komu fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir stuttu síðan. Þetta er allt mjög ferskt í minni í ljósi þess hversu stuttur tími hefur verið til afgreiðslu þessa máls, sem er auðvitað fráleit staða að vera í, enda erum við hér rétt farnir að krafsa í yfirborðið á efnisatriðum málsins eftir þessar fáeinu ræður okkar hér við 2. umræðu. En sem betur fer tekur enginn annar þátt í umræðunni þannig að það er auðvelt fyrir þá sem fylgjast með að halda samhengi þegar við þurfum að slíta á milli efnisatriða okkar með fimm mínútna millibili.

Mér fannst skipta máli að rifja upp þessar fréttir og þetta eru bara fréttir af handahófi, teknar út nokkrar af veraldarvefnum. En allar segja þær þessa sömu sögu, að að kerfinu innleiddu eins og það er þá stórskaðast samkeppnisstaða íslensks samfélags og Ísland sem tengimiðstöð flugs yfir Atlantshafið getur verið í uppnámi. Þess vegna, eins og ég kom inn á í fyrstu ræðu minni, lögðum við þessa ríku áherslu á það í Miðflokknum að sett yrði inn bráðabirgðaákvæði, sem fallist var á og er núna inni sem breytingartillaga og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem stjórnvöld væru sett undir smásjá Alþingis hvað framvindu og hagsmunagæsluna varðar í þessu máli. Þá getum við fylgst með, rekið eftir eða eftir atvikum lagt nýjan kúrs, lagt nýja leið ef við blasir það sem líklegast er, að samningamenn Evrópusambandsins segi við samningamenn Íslands: Heyrðu, nú bíður ykkar bara kerfið eins og það er, rétt eins og í siglingunum. Gangi ykkur vel.