154. löggjafarþing — 52. fundur,  16. des. 2023.

viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.

543. mál
[15:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Eins og þekkt er erum við Miðflokksmenn friðarins menn og munum reyna að stytta mál okkar eins og nokkur kostur er núna þó að tilefni væri til umræðna hér dögum saman með þátttöku sérstaklega þeirra sem munu greiða atkvæði með þessu frumvarpi á eftir og innleiða þessar 14 gerðir Evrópusambandsins sem fæstar hafa fengið nokkra umfjöllun hér í þingsal. Þetta gæti orðið með síðustu ræðum mínum í þessari umræðu og ég vil nefna á hraðbergi þau atriði sem ég hafði ætlað mér að fara í í umræðunni hér svo að þeir sem á horfa og hlusta átti sig á hversu mikið er órætt í málinu.

Það eru samskipti hæstv. forsætisráðherra og Evrópuráðsins, þ.e. Katrínar Jakobsdóttur og Ursulu von der Leyen, sem kalla á umræðu sem er ekki tími fyrir. Það eru ýmsar umsagnir sem draga fram alvarleika málsins og sérstaklega væri hægt að eyða hér heilum klukkutíma í að ræða sjónarmið sem fram koma í sameiginlegri umsögn frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands. Það eru hin ýmsu minnisblöð til umhverfis- og samgöngunefndar frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti þar sem farið er inn á ýmislegt og reynt að útskýra með hvaða hætti þetta er ekki óforsvaranlegt með öllu, en það tekst nú misvel svo vægt sé til orða tekið. Það er yfirferð umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins um frumvarpið sjálft sem auðvitað hefur verið sáralítill tími til að greina. Umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar ein og sér væri auðvitað tilefni í langa umræðu sem ég hef ekki tíma til að fara í hérna. Sérstaklega sé ég eftir því að hafa ekki tíma til að fjalla um minnihlutaálit Andrésar Inga Jónssonar, hv. þingmanns Pírata, sem er prýðisgott hvað ýmis efnisatriði varðar, þótt við séum ekki sammála efnislega um málið og hvað sé skynsamlegt í þeim efnum.

Síðan er hér greining á áhrifum þessa regluverks eins og það tekur við og eins og það hefði orðið án undanþágna sem þó eru tímabundnar sem hefði auðvitað átt að taka langa og djúpa umræðu um hér í þingsal. Það eru fyrirspurnir þingnefnda til ráðuneyta og stofnana vegna málsins sem hefðu kallað á djúpa umræðu til að glöggva þingheim á því hvað við tekur. Ég minni á það sem fram kemur í umsögnum aðila í Húsi atvinnulífsins þar sem okkur þingmönnum er beinlínis óskað góðs gengis og í raun vottuð samúð vegna þess að við fáum málið í fangið og höfum 11 þingdaga sem urðu 12 til að afgreiða það hér. Þar kom fram hversu mikið af upplýsingum vantaði til að það væri hægt að glöggva sig á áhrifum. Fyrirtæki landsins eru með bundið fyrir augun gagnvart þessu regluverki eins og það er, það er það margt sem vantar inn í þetta. Það er umfjöllun um breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir sem kom frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, sem kom núna 4. desember, sem hefði raunverulega kallað á umtalsverða umræðu, en maður gefur sér ekki tíma til. Síðan eru hér glærur sem er alveg agalegt að hafa ekki tíma til að fara í gegnum sem lýsa þeim áhrifum sem á hefðu skollið hefði ekki samist um sérlausn. Sérlausnin væri eflaust alveg ágæt ef hún væri ekki svona tímabundin.

Ég bara hvet stjórnarliða til að horfa á það með galopnum augum hversu stutt er í að þetta regluverk taki við hér á landi, að þessum lögum innleiddum eins og þau eru.

Umsagnir Landsvirkjunar og Samtaka iðnaðarins hefðu sömuleiðis kallað á langa umfjöllun en til þess gefst ekki tími hér. En, frú forseti, ég bið þig hér með að setja mig einu sinni enn á mælendaskrá og reikna með að það verði lokaræða mín nema eitthvað óvænt komi upp.