154. löggjafarþing — 70. fundur,  12. feb. 2024.

breytingar á löggjöf um hælisleitendur og aðstoð við fólk frá Gaza.

[15:17]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir tiltölulega skýr svör. Það hefur sem sagt á engan hátt verið brugðist við kröfu hæstv. utanríkisráðherra um endurskoðun á kerfinu í heild samhliða því að farið yrði í þær aðgerðir sem nú eru farnar af stað. Þá veltir maður fyrir sér hvers vegna þessi sinnaskipti urðu. Ég veit að hæstv. ráðherra getur hugsanlega ekki svarað því en hann var skýr með að menn ræði nú eitt og annað í þessari ráðherranefnd um útlendingamál, m.a. inngildingu, og kemur engum á óvart að þau ræði meira um inngildingu en aðlögun. Þau hafa eflaust rætt þetta vikum, mánuðum og jafnvel árum saman án þess að mikill árangur hafi náðst.

Eitt í viðbót af viðfangsefnum þessarar nefndar, sem hlýtur að vera það, eru öryggismál því að önnur Evrópuríki hafa tekið öryggismálin mjög föstum tökum í tengslum við þessa atburði. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða ráðstafanir hafa íslensk stjórnvöld gert til að tryggja öryggi?