154. löggjafarþing — 96. fundur,  16. apr. 2024.

ráðstöfun eignarhlutar í Íslandsbanka hf.

920. mál
[17:19]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Frú forseti. Í þessari umræðu erum við í raun fyrst og fremst að svara tveimur spurningum. Fyrri spurningin er: Á að selja banka? Hin spurningin er: Á þessi ríkisstjórn að selja banka? Sumir telja að ríkið eigi alls ekki að vera í bankarekstri yfir höfuð. Það er sannarlega ákveðinn hagsmunaárekstur á milli ríkissjóðs og banka eins og annarra fyrirtækja. Rök fyrir því að ríkið reki banka hafa að gera með smæð ríkisins, fákeppni og samfélagslegt hlutverk bankanna. Sumir þeirra sem eru á móti því að ríkið sé í bankarekstri styðjast fyrst og fremst við kenningar um að ríkið eigi ekki að vera í samkeppnisrekstri og að markaðurinn virki best án of mikilla afskipta, hvað þá þátttöku, ríkisvaldsins. Þessi afstaða byggir auðvitað á ákveðnum forsendum sem ekki eru alltaf fyrir hendi. Markaðsfyrirkomulagið, þar sem markaðsöflin vinsælu, framboð og eftirspurn, ráða för, getur auðvitað hentað til að auka afköst, bæta þjónustu, auka val neytenda, lækka verð og stuðla að nýsköpun. En það er ekki algilt þrátt fyrir það sem sumir virðast ganga út frá. Til þess að markaðsfyrirkomulag sé til góða þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar og ákveðin orsakatengsl. Þegar þessi orsakatengsl eru ekki til staðar þá er það ekki svo einfalt að lögmálin um framboð og eftirspurn séu að fara að bjarga málunum. Sú hugmynd að markaðsfyrirkomulagið stuðli ávallt að þessum gæðum, þ.e. lágu verði, auknu úrvali og auknum gæðum, gerir í raun ráð fyrir því að um sé að ræða óendanlega stórt hagkerfi þar sem óendanlega margir aðilar geta hafið þátttöku í samkeppninni á hvaða tímapunkti sem er. Þannig verður til þrýstingur sem er til þess fallinn að bæta þjónustu og lækka verð. Í litlu og tiltölulega lokuðu hagkerfi á borð við Ísland er einfaldlega ekki alltaf pláss fyrir marga aðila og stundum bara rými fyrir einn.

Annar þáttur sem skiptir máli hér, og er vanmetinn, er þegar um er að ræða þjónustu sem við höfum ekki mikið val um að nota nema með því að haga hlutum hjá okkur á allt annan hátt en samfélagið gerir almennt ráð fyrir. Við getum tekið lán erlendis. Við getum notað erlend lén. Við getum verið upp á kant við allar stofnanir landsins sem krefjast skilríkja. Við getum auðvitað búið í kofa uppi á hálendinu. Við höfum það val. En til að búa við íslenskan veruleika, án þess að vera í stanslausu stríði við ákveðin fyrirtæki, þá borgar maður bara það sem er rukkað og samþykkir þá skilmála sem manni er sagt að samþykkja. Við slíkar kringumstæður vantar samkeppni sem forsendu og þá er ekki lengur hægt að leggjast á bæn og biðla til hinnar ósýnilegu handar um að láta lögmál markaðarins hafa þau áhrif sem við ætlumst til. Markaðslögmálin ganga ekki út frá þessum tilteknu aðstæðum, koma ekki að tilætluðu gagni og fyrirkomulagið getur valdið skaða.

Þetta þýðir tvennt. Smæð markaðarins, sem svo sannarlega á við á Íslandi, getur haft þau áhrif að það sé við hæfi að hlutir séu ríkisreknir á Íslandi sem kannski væri ekki við hæfi annars staðar, annaðhvort í heild eða að hluta. Það má í raun jafnvel orða það þannig að það sé eðlilegt að smærri hagkerfi séu lengra til vinstri en stærri. Ein lausnin á þessu er að stækka hagkerfið, sem má m.a. gera með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi í efnahagsmálum, svo sem Evrópska efnahagssvæðinu og fríverslunarsamningum og öðru slíku. Það að eðlilegt sé að ríkisvaldið hafi ákveðna þjónustu með höndum eða sé þátttakandi í ákveðnum rekstri þýðir ekki sjálfkrafa að þjónustan verði endilega á betra verði eða betri ef hún er veitt af ríkinu en af einkaaðilum en það eru heldur engin lögmál, og þetta er mikilvægt, sem tryggja að einkaaðilarnir væru betri. Einkaaðilar í þessari stöðu búa raunar við sérstakt ábyrgðarleysi því að ríkisfyrirtæki er alla vega hægt að beita pólitískum þrýstingi en einkafyrirtæki svara einungis efnahagslegum þrýstingi, sem er enginn þegar samkeppnin er engin.

Þannig ber alltaf að hafa það í huga, þegar við erum að rökræða hvort hlutirnir eigi að vera einkareknir eða hjá ríkinu, hvernig aðstæður á markaðnum sem um ræðir eru. Er pláss fyrir fleiri en einn aðila? Hversu marga aðila? Er regluverkið þannig að nýr aðili geti tiltölulega auðveldlega komist inn í það? Munu neytendur hafa raunverulegt val en ekki bara teoretískt sem er oft samkvæmt kenningum sem ganga út frá óendanlega stóru hagkerfi? Svarið er í öllu falli ekki endilega já eða nei. Stundum er svarið óljóst. Stundum erum við ekki bara að reyna að fá sem mesta skilvirkni heldur líka aðgang að þjónustunni óháð efnahag. Þá þarf að taka það með í reikninginn, horfast í augu við það, að þegar kenningin er ekki hönnuð til að ná því markmiði sem við erum að reyna að ná, t.d. jafnræði og aðgengi í þeim aðstæðum sem við búum við, þá er kannski ekki rétt að láta hana eina ráða för.

En þá að stærri spurningunni, sem ég held raunar að sé mikilvægasta spurningin hér í dag. Ég held að við séum mörg hér sem höfum tekið til máls sammála því að svarið við henni sé einfaldara en við fyrri spurningunni og svarið sé: Nei. Sú spurning er: Er þessari ríkisstjórn treystandi til að selja banka? Eins og ítrekað hefur komið fram þá liggja fyrir úttektir frá þremur eftirlitsaðilum, til viðbótar við ýmsar athugasemdir, um að lögum og reglum hafi ekki verið fylgt í ferlinu. Framkvæmd bankasölunnar á fyrri stigum hefur verið alvarlega gagnrýnd af hálfu allra þeirra aðila sem hana hafa skoðað. Ríkisendurskoðun lýsti hroðvirknislegum vinnubrögðum Bankasýslunnar. Umboðsmaður Alþingis gerði alvarlegar athugasemdir við aðkomu fyrrverandi fjármálaráðherra að málinu. Fjármálaeftirlitið lagði á bankann langhæstu sekt sem lögð hefur verið á fjármálafyrirtæki hér á landi vegna þess að lögum og innri reglum bankans var ekki fylgt við undirbúning og framkvæmd útboðsins. Ein lausnin sem boðið er upp á í því máli sem við erum að ræða hér í dag er einfaldlega að taka þær reglur sem brotnar voru úr sambandi. Það er ein leið.

Forseti. Sitjandi ríkisstjórn nýtur ekki trausts þjóðarinnar. Það er eign þjóðarinnar sem hér er verið að selja. Hringekja ábyrgðarleysis og ítrekaðir stólaleikir til þess að telja almenningi trú um að ráðherra hyggist bæta ráð sitt benda ekki til þess að nægur lærdómur hafi verið dreginn til að koma í veg fyrir endurtekin óvönduð vinnubrögð, gegnumgangandi virðingarleysi við landslög og hirðuleysi um ábyrga og vandaða stjórnsýsluhætti og geta ekki verið til þess að efla það traust. Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts til að klára þetta ferli. Staða seljandans í þessum viðskiptum ríkisstjórnarinnar er ekki sterk í þessu ferli og ekki styrkir það stöðu hennar að þurfa að klára söluna til að ná markmiðum sínum. Óháð afstöðu fólks til sölu bankans yfir höfuð væri það því afleikur að þvinga söluna í gegn undir þessum kringumstæðum. Hvað ef það berast bara léleg tilboð? Kemur til greina við þessar aðstæður að hafna tilboðum sem berast séu þau ekki í samræmi við væntingar? Eða stendur til að selja bankann, sama hvað? Ríkisstjórnin nýtur ekki trausts til þess að klára þetta ferli. Vænlegast væri, til að efla traust almennings til sölunnar, sölu á verðmætri eign almennings, og til að tryggja að hagsmunir eiganda séu ekki fyrir borð bornir í ferlinu, er að ljúka við að teikna upp heildarmyndina af því sem fór úrskeiðis, sem okkur vantar enn, með því að setja á fót rannsóknarnefnd sem hefði allar þær heimildir og þau tæki sem til þarf til að velta við hverjum steini.

Ég vil að lokum taka undir með hv. þm. Kristrúnu Frostadóttur í andsvörum við ráðherra hér fyrr í dag. Bankinn er ekki að fara neitt, það liggur ekkert á. Að lokum vil ég taka það fram að ég sakna sárlega þátttöku þingmanna Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í þessari umræðu. Það er eini stjórnarflokkurinn sem hefur ekki komið hingað upp og tekið til máls.