154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:01]
Horfa

menningar- og viðskiptaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Fjölmiðlar skipta gríðarlega miklu máli í okkar samfélagi, veita upplýsingar, fjölmiðlar þar sem eru ritstjórnir skipta miklu máli hvað varðar það að miðla til okkar efni sem er búið að fara yfir og er vandað þannig að ég tel að þeim fjármunum sem við erum að verja í það að efla fjölmiðla, sem veita okkur hér á Alþingi og atvinnulífinu aðhald, sé mjög vel varið. Ég hef hins vegar fullan skilning á þeim athugasemdum sem koma fram hjá hv. þingmanni. Auðvitað erum við uppi á tímum þar sem er mikil óvissa og þetta eru tímar þar sem hinir hefðbundnu fjölmiðlar eru að upplifa mikla breytingu með hinni stafrænu byltingu og helsti vandi fjölmiðla hefur verið að auglýsingatekjur hafa verið að flytja sig yfir inn á miðla, þessa risatæknimiðla, hvort sem það er Facebook, Google eða YouTube, þannig að tekjumódel fjölmiðla hefur brostið. Það má með sanni segja að um sé að ræða ákveðinn markaðsbrest. Ég tel að það sé bæði eðlilegt og ég held að það sé farsælt að hið opinbera komi að þessum málum meðan það er verið að raða upp á nýtt á taflborðinu.