154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[15:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég er að reyna að átta mig aðeins á tölunum sem koma hér fram um fjármögnun málefnasviðsins menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál, en þar kemur fram að það er verið að bæta við 400 milljónum í varanlegt framlag til menningarmála til stofnunar þjóðaróperu og starfslauna listamanna. Einnig er gert ráð fyrir auknu framlagi til Þjóðskjalasafns Íslands, það er ekki tilgreint hversu mikið, ásamt því að tekjur aukast um 347 milljónir. Síðan eru lækkanir upp á rétt rúman milljarð og niðurfelling um 1,5 milljarða eða svo vegna framlaga sem komu til vegna heimsfaraldurs og ýmiss konar tímabundinna framlaga sem eru svona klassískt mál fjárlaganefndar, tímabundnu framlögin, það er einmitt afskaplega pirrandi að það sé ekki einhvern veginn afgreitt á skipulagðari hátt. Þetta á ekki að fara í gegnum fjárlaganefnd. Fyrirkomulagið sem kom með lögum um opinber fjármál átti að afgreiða það að ekki væri verið að vinna fjárlög á þann hátt. En miðað við þetta þá eru þarna u.þ.b. 1,7 milljarðar eða svo þótt ég viti ekki hversu miklu framlagið til Þjóðskjalasafnsins myndi hnika til þar. Það er u.þ.b. 8,5% lækkun framlaga þessa málefnasviðs ef við tökum til hliðar fjárfestingarnar varðandi rekstur. Ég átta mig ekki alveg á tölunum sem koma þarna um áætluð framlög í rekstur og tilfærslur sem byrja í 20,7 milljörðum og enda í 19,1. Það eru 1,7 milljarðar eða svo sem fara og ég átta mig ekki á því hvaðan þeir komu. Af hverju er það ekki skýrt nánar?