154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í janúar síðastliðnum gaf Alþjóðadómstóllinn í Haag út bráðabirgðaúrskurð um Ísrael og skuldbindingar þess til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á Gaza. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að rökstudd ástæða væri til að ætla að þær aðstæður gætu myndast að þjóðarmorð yrði framið á Gaza og gaf út ákveðnar skipanir um að Ísrael skyldi gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir að þjóðarmorð eigi sér stað. Meðal þeirra tilmæla eða skipana sem komu frá Alþjóðadómstólnum í Haag var að tryggja að neyðarvistir og birgðir gætu komist til Gaza. Í framhaldinu, virðulegi forseti, hefur mataröryggi versnað til muna. Nú er spáð fyrir um að raunveruleg hungursneyð muni eiga sér stað á Gaza á næstu dögum eða vikum. Mataröryggi barna er það versta í öllum heiminum á Gaza. Það má rekja þá stöðu beint til hernaðaraðgerða Ísraelshers og þess að þeir neita að koma vistum á svæðið. Alþjóðadómstóllinn tók undir kröfu Suður-Afríku um að bæta við tilmæli sín til Ísraels í mars síðastliðnum vegna þess hversu mikið ástandið hefur versnað frá því að hann gaf út sinn fyrsta bráðabirgðaúrskurð.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er því þessi: Í ljósi þess að við erum aðilar að sáttmálanum gegn þjóðarmorði, hvað hefur hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin gert til að koma í veg fyrir þjóðarmorð á íbúum Gaza? Og hvað hefur hæstv. ríkisstjórn gert til þess að koma í veg fyrir hungursneyð á Gaza?