154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[19:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist það koma berlega í ljós að það er ekki nóg að lýsa því bara yfir að okkur finnist að alþjóðalögum eigi að fylgja. Ísraelsk stjórnvöld virða það algjörlega að vettugi, þau virða meira að segja að vettugi tilmæli frá Alþjóðadómstólnum í Haag. Eiga ekki, að mati hæstv. ráðherra, að vera einhverjar afleiðingar við því þegar Alþjóðadómstóllinn í Haag segir Ísrael að hleypa neyðarvistum inn á svæðið og Ísrael hleypir ekki neyðarvistum inn á svæðið? Þetta er ekki spurning um hvort heldur nákvæmlega hvenær við getum lýst því formlega yfir að hungursneyð sé hafin á Gaza. Það er nú þegar að gerast að börn eru að svelta í hel. Það er nú þegar að gerast að sár gróa ekki vegna verulegrar vannæringar barna, allt niður í nýfædd börn. Það er ógeðslegt ástand sem við erum að horfa upp á án þess að aðhafast nokkurn skapaðan hlut. Og eru engar afleiðingar við því, virðulegi forseti? Og það þýðir ekki að koma með einhverjar yfirlýsingar hér. Hvenær slítum við stjórnmálasambandi við Ísrael? Hvenær sendum við sendiherra þeirra heim? Hvenær segjum við stopp við þjóðarmorði í aðsigi? Hvenær ætlum við að gera eitthvað í þessu, virðulegi forseti, annað en að tala um réttindi og skyldur eins og á einhverjum tyllidögum?