154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:01]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Forseti. Nú þegar eru komin fram þó nokkur atriði sem þarf að skoða betur þegar hv. fjárlaganefnd mun taka þessa þingsályktunartillögu formlega til sín þótt hún hafi reyndar fengið undanþágu til að byrja á málinu sökum tímaskorts. Það verður líka áhugavert að sjá viðbrögð fjármálaráðs við aðgerðum vegna kjarasamninga og annarra þátta í þessari áætlun en það eru aðgerðir sem ég tel að flestir álíti langtímabreytingar á velferðarkerfinu. Ef stjórnvöld líta ekki svo á get ég alla vega leyft mér að segja að ég held að flestir þarna úti, almenningur og þeir sem stóðu að þessum kjarasamningum, hafi talið að um langtímabreytingar á velferðarkerfinu væri að ræða. Jafnframt er talað um það í þessari fjármálaáætlun að þessir kjarasamningar og þær aðgerðir sem þar var gripið til, sem við í Samfylkingunni styðjum heils hugar hvað varðar sértækar aðgerðir, feli í sér 13 milljarða langtímabreytingu á útgjöldum ríkissjóðs. En þá þurfum við auðvitað að skoða fjármögnunarhliðina og þetta er það sem Samfylkingin og jafnaðarfólk hefur ætíð talað fyrir.

Í þessari áætlun virðast menn í fljótu bragði vera búnir að finna til einhvers konar fjármögnun fyrir umræddan kjarapakka. En þetta er í raun bara kropp hér og þar, það eru engar stórvægilegar langtímabreytingar sem tryggja endilega rekstrargrundvöll ríkissjóðs á þessum sviðum. Það er auðvitað áhyggjuefni og eitthvað sem við þurfum að fara betur yfir.

Ég legg áherslu á það, forseti, að á næsta ári er það frestun gildistöku laga, sem átti að styrkja fjárhagsstöðu öryrkja, sem skilar sér í 9 milljarða sparnaði og er það flokkað sem aðgerð til að standa undir kjarasamningum og kostnaði sem þar skapast. Þetta er ekki bara einhver orðræða sem er að koma frá stjórnarandstöðunni eða frá minni hlutanum vegna þess að við séum að reyna að snúa út úr. Það er einfaldlega svo að hv. fjárlaganefnd hefur nú þegar fengið lista yfir þær aðgerðir sem verið er að grípa sérstaklega til og stendur bara mjög skýrum orðum að sé í forgangsröðun og séu sérstakar tekjuráðstafanir vegna kjarasamninga. Það er ekki bæði hægt að telja það til þegar það hentar að allt sé fullfjármagnað en vísa því síðan í burtu vegna þess að fólki finnist óþægilegt að tala um það.

Vel má vera að frumvarpið um styrkingu á örorkubótakerfinu hafi þurft meiri tíma en það breytir því ekki að þetta fjármagn hefði þá getað nýst í að styrkja þjónustu við þennan hóp fólks með öðrum hætti eða annars staðar í kerfinu, en það er ekki gert. Síðan hefur það líka fengist staðfest að það á að leggja niður vaxtabótakerfið á tímabili þessarar fjármálaáætlunar. Þetta er líka eitthvað sem við þurfum að skoða betur í hv. fjárlaganefnd, vegna þess að niðurlagningu á heilu kerfi þarf að skoða í heildarsamhengi. Ég sýni því alveg skilning að stjórnvöld eru með stærri áætlanir um að styrkja húsnæðisuppbyggingu og vilja fara aðra leið í að bæta kjör fólks en að greiða niður vaxtakostnað. Og ég vil bara að það komi hér fram að ég átta mig alveg á þeim rökstuðningi. Auðvitað er ekki heilbrigt að hér sé hátt vaxtastig og fólk sé að greiða háa vexti til fjármálafyrirtækja sem ríkissjóður er að greiða niður. Það breytir því hins vegar ekki að það tekur tíma að breyta kerfunum, að breyta húsnæðismarkaðnum, að ná niður vaxtastiginu. Og þó að eitthvað teljist góð hugmynd til langs tíma þá eru til millilangs tíma, hvað þá skamms tíma, ákveðnir einstaklingar sem líða fyrir það að breytingar taka tíma.

Ég á erfitt með að sjá, forseti, og við þurfum að ræða það betur í hv. fjárlaganefnd, að það sé tímabært að leggja vaxtabótakerfið niður að fullu árið 2026, eins og virðist gert ráð fyrir í þessari fjármálaáætlun; að ástandið á húsnæðismarkaði verði orðið slíkt eftir eitt og hálft ár að ekki einn einasti einstaklingur á Íslandi þurfi aðstoð við sínar vaxtagreiðslur. En þetta munum við skoða.

Það eru aðrar forsendur í þessu frumvarpi þar sem litið er til sparnaðar vegna kjarapakka ríkisstjórnarinnar, líkt og hærri tekjur eldra fólks, sem gera það að verkum að skerðingar aukast á tímabili fjármálaáætlunar miðað við það sem áður var búist við, og síðan er það lækkað nýgengi örorku. Þessir tveir liðir virðast spara ríkinu, eins og fram hefur komið í fyrstu tölunum sem hafa borist hv. fjárlaganefnd, um 5 milljarða á hverju ári. Það eru auðvitað jákvæðar fréttir, forseti, ef nýgengi örorku lækkar. En spurningin er hvort rétt sé að nýta það svigrúm sem skapast af því til að fjármagna þennan kjarapakka ríkisstjórnarinnar eða hvort frekar hefði átt að fjárfesta í innviðum eða skoða réttláta tekjuöflun á móti. Þetta eru allt forgangsröðunarmál og við ættum bara að vera hreinskilin með það í þessum sal. Það snýst bara um pólitík og hvernig við viljum sjá forgangsröðun í kerfunum okkar.

Ég vil líka vekja athygli á öðru sem ég tel að fleiri í hv. fjárlaganefnd hafi áhuga á, þ.e. að skoða aðhaldskröfuna á lögregluna. Við fengum svör við því í dag í hv. fjárlaganefnd að hún kæmi aftur inn á miðju tímabili þessarar áætlunar. Ef ég skildi fjármálaráðuneytið rétt þá væri það mögulega á næsta og þarnæsta ári, eða í það minnsta út árið 2025, sem aðhaldskrafan yrði afnumin en hún kemur síðan aftur inn. Á sama tíma vitum við að stórkostleg fólksfjölgun hefur orðið á Íslandi. Við höfum séð, vegna þessarar aðhaldskröfu á svið innan stjórnkerfisins sem er fyrst og fremst rekið á launakostnaði og beinum kostnaði þess vegna, að það hefur leitt af sér fækkun í lögreglunni. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða betur.

Annað sem ég vek athygli á er fjárfestingarstigið í þessari fjármálaáætlun sem við þurfum líka að taka til skoðunar. Við sjáum til að mynda að ein aðgerðin sem litið er til, í þeirri forgangsröðun sem birtist frá ríkisstjórninni til að fjármagna kjarasamninga, er frestun á fjárheimildum til nýja Landspítalans. Það er líka verið að fresta húsnæði sem átti að nýtast almannavörnum. Áætluninni er stillt þannig upp að miðað sé við að það séu alltaf 2% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingu ríkissjóðs á kjörtímabilinu þótt við vitum reyndar að langtímameðaltalið er 2,2%. Og við vitum líka, forseti, að það mun þurfa að skjóta vel yfir það mark til að vinna upp fjárfestingartap síðustu ára. Ég er því miður ekki vongóð um að þetta muni nægja en þetta þarf að skoða betur.

Ég vek athygli á því að það sem ég hef einna helst áhyggjur af er fjárfesting í samgöngum hér á landi. Það er mjög gott, forseti, að komið sé fjármagn inn í samgöngursáttmálann að hluta og eins, ef rétt reynist, að það eigi að bæta aðeins í viðhaldið. En nýframkvæmdir eru enn á gífurlega vondum stað. Engin jarðgöng hafa verið boruð á tíma þessarar ríkisstjórnar og lítið svigrúm til stórtækra nýrra framkvæmda út kjörtímabilið og í raun inn í það næsta miðað við þessa fjármálaáætlun, ef hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að sitja áfram. Við í Samfylkingunni viljum sjá hækkun á hlutfalli fjármagns sem fer í vegakerfið ef við skoðum landsframleiðslu en það hefur lengi vel verið hálft prósent af landsframleiðslu hér, langt undir meðaltali OECD-ríkja, sem er í kringum 1%. Samfylkingin myndi vilja sjá þetta hlutfall fara upp í það, upp í 1%.

Ég vek athygli á því, forseti, að ég er auðvitað meðvituð um, eins og ég nefndi hér í fyrstu ræðu minni, að ekki er hægt að takmarka sínar hugmyndir um framfarir og verðmætasköpun við það eitt að færa fjármagn á milli fólks. En ef við ætlum að fara að tala um verðmætasköpunina og að vaxa með skynsamlegum hætti og draga úr því stórkostlega innviðaálagi sem hér hefur verið á undanförnum árum, sem hraður hagvöxtur hefur falið í sér, þá verðum við að ná upp hagvexti á mann sem við vitum að hefur verið í engu samræmi við heildarvöxt hagkerfisins. Þá verðum við að fjárfesta í lífæðum landsins, m.a. í samgöngunum. Við vitum að hæstu skuldirnar hér á landi eru innviðaskuldirnar, það eru ekki bókhaldslegar skuldir ríkissjóðs, og við getum ekki sofið þar á verðinum.

Mig langar hér í lokin að benda á að það er ekkert sem ég sé í fljótu bragði sem mér finnst benda til þess að miklar umræður um sameiningu stofnana eða hagræðingu í rekstri sé sérstaklega notað til að koma til móts við þessa kjarasamninga heldur virðist þetta einfaldlega vera, sem er að mörgu leyti mjög eðlilegt, langvarandi verkefni ríkisstjórnar hvers tíma að fara betur með fjármagn. Ég get alveg tekið undir að það skiptir máli. En ég held að það skipti líka máli að almenningur þarna úti heyri að slíkrar breytingar spara ekki stærstu upphæðirnar í þessari áætlun. Ég hlakka til yfirferðar á þessari áætlun í hv. fjárlaganefnd, umsagna og umræðu í nefndinni.