154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég myndi segja að það væru forréttindi að fá að standa hér og fjalla um fjármálaáætlun í landi þar sem lífskjör eru hvað best á byggðu bóli og velferðarkerfið öflugt. Við skorum hvað hæst í flestum lífskjaramælikvörðum sem við viljum standa okkur vel á miðað við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. Það er því mjög jákvætt að fá að fylgja slíkri fjármálaáætlun úr hlaði, sérstaklega eftir að við erum búin að leggja stór lóð á vogarskálarnar í því að takast á við mestu áskoranirnar sem eru í gangi í efnahagsmálum, en það eru háir vextir og þar af leiðandi verðbólga sem er áskorun fyrir bæði heimili og fyrirtæki, landsmenn alla. Það er gott að þetta sé ábyrg fjármálaáætlun sem geti stutt við kjarasamningana þannig að við megum vænta þess að við getum séð betri tíð hvað varðar vexti í samfélaginu, lækkandi vexti, og það er gríðarlega mikilvægt. Það mun bæta lífskjörin hér enn frekar.

Það verður að huga að því að við erum með aðhald en ekki niðurskurð í þessari áætlun. Þrátt fyrir að hafa komið myndarlega að kjarasamningum og þrátt fyrir að undanfarin ár hafi þessi ríkisstjórn þurft að takast á við heimsfaraldur, tvenn stríð sem hafa brotist út í heiminum og viðverandi náttúruhamfarir sjáum við samt hagvöxt og efnahagshorfur eru að batna. Ég held að það sé varla hægt að fá miklu skýrari merki um trygga efnahagsstjórn. En það eru alltaf áskoranir og alltaf hægt að gera betur og því hlakka ég til umræðu um þessa fjármálaáætlun í hv. fjárlaganefnd til að leita leiða þar.

Það er líka eitt sem er mikið gleðiefni í þessari fjármálaáætlun, þ.e. að gert er ráð fyrir innleiðingu á nýju örorkukerfi sem hefur verið í yfir áratug til umræðu. Pétur heitinn Blöndal leiddi hér mikla og öfluga vinnu við endurskoðun á almannatryggingakerfinu, bæði fyrir eldri borgara og öryrkja. Stórar og miklar breytingar hafa þegar verið innleiddar hvað varðar almannatryggingakerfi eldri borgara og nú er okkur, þessari ríkisstjórn, að takast að innleiða breytingarnar varðandi örorkukerfið. Það er fjármagnað í þessari fjármálaáætlun sem er mikið gleðiefni og gríðarlega mikið framfaraskref sem ég held að muni bæta lífskjör allra landsmanna mikið, sérstaklega þess hóps sem þetta á við um. Við skulum fagna því.

Það er líka jákvætt að í aðhaldinu eru okkar mikilvægu velferðarinnviðir varðir eins og heilbrigðiskerfið og menntakerfið og annað. Við höfum undanfarin ár einnig hlíft lögreglunni fyrir aðhaldi og er það á áætlun næstu tvö árin. Fjárlaganefnd hefur ítrekað fjallað um þetta hvað varðar lögregluna og ég tel mjög mikilvægt að skoða þetta vel, hvort lögreglan eigi nokkurn tímann að þurfa að sæta aðhaldi, eða þá alla vega í lágmarki, þó að lögreglan sem og allir aðrir innviðir og stofnanir hins opinbera eigi að sjálfsögðu að leita leiða til að fara vel með opinbert fé og leita leiða til að gera hlutina á sem skilvirkastan og hagkvæmastan hátt. Það hefur vissulega verið gert í lögreglunni undanfarin ár, það hefur verið farið vel yfir rekstrarumhverfið. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í umræðunni fyrr í dag hefur verið tekið upp verkbókhald og ýmislegt gert til þess að reyna að álagsstýra þessu og annað. En verkefni lögreglu hafa aukist mikið. Samfélagið hefur breyst mikið. Eins og ég kom inn á áðan hefur mikið verið um að vera hvað varðar almannavarnir, bæði heimsfaraldur og náttúruvá, og svo hefur aukinn ófriður í heiminum líka áhrif á þetta. Við verðum að átta okkur á því að rekstrargjöld lögreglunnar eru mestöll í mannafla. Það segir sig sjálft að það þarf aukinn mannafla við auknar áskoranir, líka auknar kröfur í dómskerfinu. Við höfum verið að ná góðum árangri varðandi rannsóknir kynferðisbrota og forvarnir í því gegnum aukna áherslu innan lögreglunnar. Þau eru mörg slík verkefnin. Hagræðing lögreglunnar þýðir fækkun á mannskap og ég held því að við þurfum samhliða að auka skilvirkni í störfum lögreglu, sem hefur verið gert, og auka í hana en fara sparlega með aðhaldið eins og í heilbrigðiskerfinu. Við munum áfram taka þetta til skoðunar í hv. fjárlaganefnd.

Þá vil ég koma aðeins inn á innviðina. Grunninnviðir þjóðarinnar eru gríðarlega mikilvægir til þess að við höldum áfram að reka hér öflugt efnahagskerfi. Þar hafa samgöngur, sem eru almennir öryggisinnviðir eins og heilbrigðiskerfið, lögreglan og menntakerfið, skipt miklu máli. Þar held ég að við getum breytt ríkiseigum í mikilvæga innviði, þannig að einskiptistekjur af sölu ríkiseigna — eins og fjallað er um í fjármálaáætluninni og ég fagna fjölbreytni í því — geti nýst í einsskiptisframkvæmdir við uppbyggingu mikilvægra innviða sem er mikið velferðarmál. Ég hef lengi sagt að samgöngur séu eitt mikilvægasta velferðartækið því að gott samgöngukerfi eykur öryggi og dregur úr slysum og álagi á velferðarkerfið. Um leið stuðla allar samgönguframkvæmdir að hagvexti sem hjálpar okkur að byggja upp öflugra velferðarkerfi. En talandi um samgöngur og tekjuöflun er ánægjulegt að sjá að gert er ráð fyrir því í þessari fjármálaáætlun að aukning verði í samgöngum, bæði í uppbyggingu samgönguinnviða og í gegnum aukið viðhald á vegakerfinu og aukna þjónustu, vetrarþjónustu aðallega. Það kemur í beinu framhaldi af því að við drógum úr þeim afslætti sem nýorkuökutæki hafa verið að fá. Við erum að breyta tekjumódelinu þar. Auknar tekjur hafa verið að skila sér og það skilar sér beint út í aukna þjónustu og framkvæmdir í samgöngukerfinu sem ég fagna alveg gríðarlega.

Hér í lokin held ég að ég ætli að nýta tímann og minnast á það sem við þurfum að fjalla um. Þar sem við erum hér með fjármálaáætlun held ég að það sé mikilvægt að við horfum á það hvernig mismunandi málaflokkar eða mismunandi ráðuneyti þurfa að horfa á sum verkefni saman, eins og t.d. móttöku ferðamanna sem ég ræddi við hæstv. heilbrigðisráðherra fyrr í dag. Íbúafjöldinn á vinsælum ferðamannastöðum margfaldast kannski en grunnþjónusta, eins og heilbrigðisþjónusta og annað neyðarviðbragð, er miðuð við þá fáu íbúa sem eru á svæðinu. Þarna þurfa þá kannski ferðamálaráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og allir að taka höndum saman, hvernig við byggjum þessa innviði til að þessi stóra atvinnugrein geti þróast og byggðirnar með á þann veg að þetta skili okkur raunverulegum ávinningi. Þarna eru forvarnir mikilvægar og betri vegir eru t.d. forvarnir í þessu og svo bara samþætting þjónustu, hvernig við bregðumst sem best við auknu álagi á svæðum, komum í veg fyrir slys og óhöpp, hvernig hægt er að bregðast við á sem hagkvæmastan hátt. Ég hlakka bara til að takast á við þetta verkefni í hv. fjárlaganefnd, hvernig við getum varið þá góðu efnahagsstjórn sem við höfum haft hér og haldið áfram fyrir þjóðina alla til meiri velsældar.