154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég hef verið hér á þingi og rætt allar fjármálaáætlanir sem lagðar hafa verið fram frá því að lög um opinber fjármál voru samþykkt og hef setið í fjárlaganefnd allan þann tíma. Það er áhugavert að sjá þróunina á fjármálaáætlun á þessum tíma þar sem það er mjög skýrt í lögum um opinber fjármál, sem ekki er farið að fara alveg eftir — það kom skýrt fram á fundi nefndarinnar í morgun, sérstaklega með eina af uppáhaldsgreinunum mínum, eða 20. gr., varðandi stefnu stjórnvalda: Fjármálaáætlunin er plagg þar sem stjórnvöld leggja fram sína stefnu kostnaðarmetna, ábatagreinda, forgangsraðaða, valkostagreinda o.s.frv. En ekkert af því er gert.

Þegar maður spyr: Bíddu, þetta stendur í lögunum, af hverju er ekki byrjað að gera þetta? Þá er bara er sagt: Við bara getum það ekki. Þetta er svo mikil vinna, það er ekki einu sinni reynt. Maður bendir á að þetta sé í lögum og þá er þetta bara framtíðarverkefni. En þetta er í lögum, og fólk ypptir bara öxlum.

Við glímum við þann vanda að geta ekki átt innihaldsríka og efnislega umræðu um fjármálaáætlun, þ.e. stefnu stjórnvalda, fyrr en þau fara að fara eftir lögum um opinber fjármál og skila fjármálaáætlun í réttu útliti, með réttu innihaldi, með réttum greiningum. Þaðan kemur málefnaleg og efnisleg umræða þegar stjórnvöld leggja á borðið það sem þau segjast ætla að gera, með peninga á bak við. Það er mjög algengt að stjórnvöld lofi gulli og grænum skógum en svo þegar kemur að fjárlögum þá bara gleymist, virðist vera, að það þarf að fjármagna þetta allt. Við eigum ekki nægan pening fyrir þessu. Það á að koma fram í fjármálaáætlun, fyrstu drögunum að henni.

Almenna staðan hér er samt sú, þegar maður fer að skoða efnahagskaflann sem fylgir og hefur iðulega fylgt fjármálaáætlun, sem er ansi góður og hefur alltaf orðið betri og betri, það má alveg hrósa fólki fyrir það, að það eru alltaf ýmsar fegrunaraðgerðir í gangi. Það er alltaf verið að segja hlutina á jákvæðari hátt frekar en á hreinskilinn hátt. Sem dæmi er gert ráð fyrir 3,2% verðbólgu á næsta ári, 2025. Það er spá Hagstofunnar, Seðlabankinn er einhvers þar líka o.s.frv. Mjög áhugavert. Til þess að ná 3,2% í ársverðbólgu í lok ársins 2025 þarf verðbólgan að vera þó nokkuð undir langtímameðaltali, meðaltali þessarar aldar, í verðbólguþróun; tæplega 0,3%, ég man það ekki alveg, á mánuði. Nú erum við í u.þ.b. 0,6% á mánuði, við þyrftum að helminga eða taka tvo þriðju af núverandi verðbólgu til að ná þessu markmiði fyrir lok ársins 2025. Fyrst markmiðið er að ná því með því að vera undir langtímameðaltali þá þarf einhverjar sérstakar aðgerðir til þess. Það er í raun ekkert rosalega flókið að setja fram rök sem styðja það að þetta muni nást af því að hagkerfið sem slíkt er að nokkru leyti fyrirsjáanlegt, sögulega séð alla vega, og við vitum umfang þess í milljörðum króna. Þá er hægt að segja að miðað við ákveðna þróun muni þetta margir milljarðar bætast við hingað og þangað en við ætlum að draga úr því sem dregur þá úr verðbólgu. Það á annaðhvort að vera meiri skattheimta til þess að draga fjármagn úr hagkerfinu eða lægri útgjöld til að skapa minni peningaprentun inn í hagkerfið. Þetta gætu stjórnvöld gert en gera það ekki. Það bendir til þess að Seðlabankinn eigi að sjá um efnahagsstefnuna þegar allt kemur til alls. Það er alla vega ekkert útskýrt í fjármálaáætlun hvernig á að ná þessu verðbólgumarkmiði upp á 3,2%. Ég myndi segja að það væri ógerningur. Ef við náum meðaltalsverðbólgu þessarar aldar þá endum við í 4,8% í lok næsta árs, ekki 3,2%.

Við þurfum líka aðeins að kunna á verðbólguna í heild sinni og þær efnahagsaðstæður sem við erum með, 6,8% almenn verðbólga, lækkar væntanlega aðeins í næsta mánuði. Stendur svo kannski í stað og hækkar og lækkar, lækkar aðallega, nokkra mánuði fram í tímann. Það er samt þannig að það finna ekki allir fyrir þessari verðbólgu, þetta er bara stóra talan. Á leigumarkaði hefur t.d. verið 9% verðbólga undanfarið ár. Fólk sem býr í leiguhúsnæði hefur þurft að horfa fram á 9% hækkun á leigunni hjá sér. Það hefur sitt að segja varðandi ráðstöfunartekjur, sérstaklega miðað við að þetta er há upphæð. Það þarf miklu meira en 9% launahækkun til að ná upp í þessa upphæð þegar allt kemur til alls. Ef við eigum að ná að skilja samhengið í efnahagsstefnunni, í stefnu stjórnvalda, verða stjórnvöld að fara að gera betur í framsetningu á lögum um opinber fjármál.

Þetta eru svona tvö helstu atriðin sem ég vildi leggja áherslu á þegar við erum að reyna að rýna markmið stefnu stjórnvalda. Í fyrsta lagi er það í rauninni ekki hægt af því að það vantar kostnaðarábatagreiningu. Þegar verið er að segja að það eigi að gera allt þetta sem verið er að lofa fram og til baka en ekki verið að sýna hvað það kostar, hvort verið sé að fjármagna þau verkefni sem er búið að samþykkja lög um, getum við ekki átt innihaldsríka umræðu um það hvort verið sé að sinna réttindum fólks, heilsugæslunni, menntakerfinu, löggæslukerfinu o.s.frv. á viðunandi hátt án þess annaðhvort að stofna til ákveðinnar innviðaskuldar, t.d. í samgöngum eða öðru, eða þjónustuskuldar, í auknum biðlistum eða í lélegri heilbrigðisþjónustu, sem skilar sér þá í verri heilsu þjóðar o.s.frv. Það er annaðhvort, þegar það vantar upp á.

Við lögðum fram tvær breytingartillögur við 1. umræðu til þess að sýna fram á augljósa galla í fjármálaáætluninni. Það er annars vegar Hús viðbragðsaðila. Eftir að mygla kom upp í núverandi húsnæði held ég að það sé ekki forsvaranlegt að fresta uppbyggingu þess húss. Hins vegar er þessi frestun örorkulífeyris. Ég heyrði að það var kallað fram í áðan að það væri rangt að verið væri að fresta kjarabótum örorkulífeyrisþega. En staðreyndin er sú að það var búið að gera ráð fyrir þessum 10,1 milljarði frá upphafi næsta árs sem er nú verið að taka frá. Það er aðeins á reiki hvort þarna sé líka inni munur á kerfislægum vexti, það var gert ráð fyrir 2,5% í kerfislægan vöxt í síðustu fjármálaáætlun en nú er það bara 1,5%. Það gæti verið að rétta upphæðin sé 9 milljarðar, við eigum eftir að sjá það betur. En það var samt búið að lofa öryrkjum þessum 9 milljörðum í kjarabætur frá upphafi ársins 2025. Nú er verið að fresta því. Vissulega með því að innleiða nýju lögin inn í kerfið, gott og blessað. En það er mjög algengt í kjarasamningum, sem þetta er í raun og veru praktískt séð, að gerð séu afturvirk ákvæði. Það voru gerðir kjarasamningar 1. mars sem voru afturvirkir frá 1. janúar eða eitthvað því um líkt. Það er hægt að gera nákvæmlega það sama hérna. Það er hægt að leyfa öryrkjum að fá afturvirk réttindi frá 1. janúar, frá þeim tíma sem þeim var lofað og það var búið að taka það fjármagn frá. Með því að gera það ekki, með því að standa ekki við það loforð, er verið að hafa þessa milljarða af þessu fólki sem bjóst við kjarabótum um næstu áramót.