154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[20:52]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Frú forseti. Nýjustu spár benda til að við náum ekki verðbólgumarkmiði fyrr en árið 2026. Þegar við ræddum fjármálaáætlun fyrir ári var kastljósið á verðbólgu og háum vöxtum. Þá sagði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, með leyfi forseta:

„Vandi okkar er sá að við höfum dálítið tapað trú fólks á að við séum að ná verðbólgunni niður. Það verður að breytast.“

Síðan er liðið ár, enn er verðbólga há og enn standa stýrivextir í rúmum 9%, 9,25%. Og nú segja spár að við getum verið að nálgast markmið um verðbólgu árið 2026. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er ekki sannfærð um að þessi nýja fjármálaáætlun geymi betri verkfæri til að ná niður verðbólgu en sú sem kynnt var í fyrra. Því miður er ég mátulega bjartsýn á það. Þær aðgerðir sem hér eru kynntar eru fyrir 2025 og næstu ár og við þurfum því í reynd að bíða eftir næsta fjárlagafrumvarpi til að sjá betur á spilin. Sú leið hefur verið farin að fresta einstökum framkvæmdum en að öðru leyti er ekki mikið þarna að sjá.

Mér finnst skipta máli í því samhengi að ræða aðeins um hraðann eða öllu heldur hægaganginn á aðgerðum. Ríkisstjórnin er sein að bregðast við. Lærdómurinn af efnahagsaðgerðum í heimsfaraldri var að það skiptir máli að aðgerðir komi fram og komi inn á réttum tíma. Hinar hvetjandi aðgerðir af hálfu stjórnvalda komu sumar hverjar seint fram þá og það hafði áhrif. Það hefur áhrif á efnahagskerfið og það sama virðist vera að gerast núna. Við sjáum kynningar um að fresta eigi einstaka byggingum og framkvæmdum. Það er t.d. verið að fresta nýrri byggingu Stjórnarráðsins sem var reyndar ekkert á dagskrá, henni hafi áður verið frestað þannig að í því samhengi er það kannski dálítið eins og blása af Tene-ferðina sem aldrei stóð til að fara í. Sú framsetning er dálítið merkileg. Það að neita sér um eitthvað sem í sjálfu sér var ekki á dagskrá er engin ofboðsleg ákvörðun.

Ég sakna þess að ekki sé meira rætt um rekstur ríkisins og tækifæri þar, en þess í stað er einstaka fjárfesting tekin út. Auðvitað er það þannig að það er vel hægt að rýna rekstur. Það er vel hægt að greina tækifærin þar og það er vel hægt að fara betur með fjármuni en nú er gert. Og auðvitað er það þannig að ekki eru öll verkefni ríkisins innbyrðis jafn mikilvæg. Hér er farið í það að undanskilja ákveðna málaflokka frá aðhaldi en að öðru leyti fá allir málaflokkar, sem á annað borð sæta hagræðingarkröfu, á sig sömu aðhaldskröfuna. Flöt aðhaldskrafa, það hefur sýnt sig, bitnar fyrst og fremst á fjárfestingu og vinna ríkisstjórnarflokkanna virðist mér að byggi ekki á neinni sérstakri greiningu á því hvernig hægt er að fara betur með fjármagn til lengri tíma litið eða greiningu á því hvernig við aukum framleiðni í stofnunum okkar. Og sennilega erum við hér að horfa á afleiðingar þess að flokkarnir þrír hafa ekki getað komið sér saman um leið.

1% aðhald á alla sem fá aðhald er merkileg niðurstaða og þá erum við komin í þá stöðu, sem ég ræddi hér fyrr í dag við hæstv. dómsmálaráðherra, að við höggvum í grunninnviði, grunnþjónustu, frumskyldu ríkisins sem er löggæsla. Það er hugmyndafræði sem ég fæ ekki til að ganga upp. En aðgerðaleysi eins og þetta hefur alvarlegar afleiðingar fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu. Fyrirtæki landsins fá síðan árið 2025 á sig 1% skattahækkun og það gildir líka um minni og meðalstóru fyrirtækin sem eru, rétt eins og heimilin, að glíma við hækkandi verð, háa vexti og finna fyrir ástandinu. Heimilin þurfa enn um sinn og í nokkuð langan tíma, samkvæmt spám, að takast á við verðbólgu og háa vexti.

Óbreytt ástand í ríkisfjármálum eru vondar fréttir fyrir millistéttina því að hún á áfram að taka á sig hækkandi vaxtakostnað, eða háan vaxtakostnað og verðbólgu, og þessi rekstur er núna, eins og ég nefndi, að skila fyrirtækjum landsins skattahækkunum. En hvað á ég við með því þegar ég nefni millistéttina sérstaklega? Jú, það eru blessunarlega hópar í íslensku samfélagi sem skulda ekki neitt og hafa það ágætt; háir vextir eru því fólki ekki sérstakt vandamál, sem er auðvitað gott. Tekjulægstu hóparnir, sem erfiðast eiga með verðbólgu og vexti, fá blessunarlega að einhverju marki stuðning stjórnvalda í gegnum bótakerfin okkar. Og af því að hér hefur verið talað um vaxtabætur og niðurfellingu á þeim þá er það auðvitað mjög umhugsunarvert. Það er staða málsins og staðreynd málsins að vaxtabætur og vextir munu hanga saman á meðan við höfum þá pólitísku stefnumörkun að velja íslenska krónu. Millistéttin, venjulegar fjölskyldur, barnafjölskyldur, þar sem fólk er á þessu æviskeiði að skuldir og útgjöld eru mikil — þetta er fólkið sem er að taka á sig reikninginn þegar viðbragð stjórnvalda við verðbólgu er lítið. Það skilar því að vextir af húsnæðislánum eru háir og öll gjöld fara á sama tíma hækkandi. Nýleg könnun sýnir að verðbólga og háir vextir hafa mikil eða mjög mikil áhrif á heimilisbókhaldið hjá 70% þjóðarinnar. Það eru aðeins 15% sem segja að vextir og verðbólga hafa lítil áhrif og það er forgangsmál að hér verði skapaðar aðstæður fyrir vaxtalækkanir.

Stutta útgáfan af verkefninu sem við okkur blasir hér er að þetta er leitin að stöðugleikanum. Stöðugleikann vantar og það er stöðugleiki sem fólk vill. Þegar bent er á hve verðbólga og háir vextir eru heimilum og fyrirtækjum erfið bregst ríkisstjórnin jafnan við með ræðunni um að hér sé staðan almennt góð. Við heyrum stjórnvöld tala um góða stöðu Íslands. Og það er rétt að margt er gott á Íslandi og íslenskt samfélag er að mörgu leyti gott og þannig viljum við hafa það. Það breytir ekki því að það þarf að bregðast við aðstæðum og það breytir ekki því að það er hlutverk stjórnvalda að taka ákvarðanir með hagsmuni fólksins að leiðarljósi.

Þegar Viðreisn hefur spurt, í umræðu um fjárlög og fjármálaáætlanir, hvers vegna það sé þannig að það þurfi margfalt hærri vexti hér á landi við svipuð verðbólguskilyrði og annars staðar er svarið yfirleitt alltaf að það sé vegna þess að hér sé svo mikill hagvöxtur. Hagvöxtur er hins vegar minni á mann á Íslandi en í nágrannalöndum okkar og þetta skiptir máli. Það skiptir máli að rýna það hvernig hagvöxturinn lítur út á mann og þar eigum við að skoða hvernig við stöndum í samanburði við OECD og önnur Norðurlönd. Þetta er ástæða þess að fólk finnur ekki svo mjög fyrir auknum lífsgæðum þrátt fyrir að hagvöxturinn sé vissulega hár. En það finnur fyrir þenslunni. Það finnur fyrir birtingarmynd þenslunnar, verðbólgunni, háum vöxtum og háu húsnæðisverði. Þegar hagvöxturinn eykst vegna fólksfjölgunar, vegna innflutnings á vinnuafli, m.a. í ferðaþjónustu, þá þarf að metta fleiri munna en það er ekki endilega þannig að fólk fái meira. Þegar við skoðum hagvöxt á mann er skiljanlegra þegar fólk segir frá því að það upplifi hann ekki vegna mikils kostnaðar í sínu daglega lífi og ekki síst vegna húsnæðiskostnaðar.

Þingflokkur Viðreisnar hefur lengi bent á að ríkisstjórnin skilji Seðlabankann einan eftir í glímunni við verðbólgu og ég ætla sannarlega ekki að halda því fram að við höfum verið ein um það. Það hafa aðrir flokkar í stjórnarandstöðu gert. Þetta hafa aðilar vinnumarkaðarins sagt og fjölmargir aðrir. Meira að segja seðlabankastjóri hefur talað um þetta en vandinn er sá að það hefur ekki verið hlustað. Nú er gert ráð fyrir 46 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á árinu 2024. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur síðan áætlunin var kynnt birt skýrslu þar sem lagt er mat á stöðu ríkisfjármála og því flaggað að hallarekstur ríkissjóðs hér á landi muni verða langtum hærri en það, 95 milljarðar árið 2024. Þetta þarf að rýna. Það hefur mikið verið talað um það af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, sem svar við skuldastöðunni og miklum vaxtakostnaði, að ætlunin sé að vaxa út úr vandanum. En það er auðvitað erfitt og mikil áskorun þegar lántökur eru dýrar og vaxtagreiðslur miklar. Það kostar okkur einfaldlega meira að skulda. Vaxtagreiðslur íslenska ríkisins eru ágætur spegill á stöðu heimilanna hvað það varðar, hve lántökur eru Íslendingum dýrar. Vaxtagjöld samkvæmt fjármálaáætlun árið 2024 eru 114 milljarðar.

Aðeins um framsetningu í fjármálaáætlun: Ég ætla ekki að segja að hún sé villandi en hún er ekki nákvæm. Þær aðgerðir sem eru sagðar eiga að ná niður verðbólgu standa að mínu viti ekki vel undir nafni. Þessi áætlun tekur ekki nægilega vel á markmiðum til að draga úr verðbólgu sem er hennar helsta verkefni. Það sést kannski ágætlega á því að verið er að boða hallarekstur til ársins 2028. Ég velti því fyrir mér hvort það geti gert gagn við þessar aðstæður að við förum að hugmyndum OECD og setjum reglur um útgjaldaþak, hvort það gæti styrkt gæði fjárlagavinnunnar að við skilgreinum eitthvert útgjaldaþak sem byggir á spám, sem byggir á framreikningi og hvort slík regla gæti stutt við önnur markmið ríkisfjármálanna.

Forseti. (Forseti hringir.) Vinnan við fjármálaáætlun fer nú fram í fjárlaganefnd. Ég mun taka þátt í þeirri vinnu af heilindum og með það að leiðarljósi að við náum fram þessum stöðugleika fyrir heimilin í landinu. (Forseti hringir.) Ég hefði ekki lagt þessa fjármálaáætlun fram í þessari mynd en mun hins vegar leggja mig alla fram um að vinnan verði gagnleg og uppbyggileg.